Kaffi Krókur – sportbar & grill – opnar um helgina
Árvökulir Fésbókargestir hafa mögulega rekið augun í auglýsingu þar sem tilkynnt er um opnun Kaffi Króks á Sauðárkróki. KK restaurant var lokað mánaðamótin ágúst september og nú opna nýir eigendur Kaffi Krók sportbar & grill með löngum laugardegi en opnað verður á laugardagsmorgni kl. 11 og ekki lokað fyrr en kl. 3 aðfaranótt sunnudags en þá verður hinn eini sanni Einar Ágúst búinn að halda upp fjörinu frá 22:30 eða þar um bil. Á sunnudaginn verður opið frá 11-22.
Feykir hafði samband við Ingólf Örn Friðriksson rekstrarstjóra sem lagði áherslu á að þó talsverð breyting væri á staðnum þá væri þetta eftir sem áður Kaffi Krókur sem allir elska. „Þetta er sportbar með veitingum en ekki veitingastaður sem á það til að sýna leiki,“ segir hann. Á matseðlinum verða borgarar, 9" pizzur og lokur og Kaffi Krókur mun skartaglæsilegum kokteilaseðli sem á eftir að gera alla vitlausa í kokteila. „Svo verður auðvitað brjáluð stemming í pool og pílu og fullt af leikjum sýndir,“ bætir Ingó við.
Ekki hefur enn verið ákveðið hvernig staðurinn verður opinn á virkum dögum en rekstrarstjórinn reiknar með að opið verði frá 17-23 en það kemur allt í ljós á næstu dögum. „Það hefur gengið vonum framar að ráða starfsfólk og er mikil stemming í hópnum að gera þetta skemmtilegt og gera vel,“ segir rekstrarstjórinn að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.