Júdódeild Tindastóls 30 ára í fyrra

Myndir aðsendar.
Myndir aðsendar.

Karl Lúðvíksson byrjaði að kenna júdó í Varmahlíð 1985 og árið 1994 stofnaði hann Júdódeild innan Tindastóls og fagnaði því deildin 30 ára afmæli sínu í fyrra. Í byrjun fékk deildin mikla hjálp frá Akureyringum og þá helst frá Jóni Óðinn Óðinssyni. Fyrsta húsnæðið sem var leigt undir starfið var hin svokallaða „Hreyfing“ frá Eddu íþróttakennara.

Seinna færðist starfsemin í íþróttasal barnaskólans, svo í kjallarann undir íþróttahúsinu og eftir það var deilt einu hólfi í íþróttahúsinu með glímudeildinni. Haldnar voru júdó kynningar meðal annars með Thor Vilhjálmssyni og Bjarna Friðrikssyni en síðan fór deildin í smá dvala og voru þá engin námskeið, æfingar, keppni né Íslandsmeistaratitlar hjá deildinni á því skeiði. Árið 2014 komu svo Einar Örn Hreinsson og Jakob Smári Pálmason, sem var iðkandi hjá Kalla í gamla daga, ásamt öðrum, deildin aftur af stað.

Æfingar voru þá í íþróttasalnum í gamla Barnaskólanum þangað til að hann var seldur. Þá byrjaði deildin að nýta sér eitt hólf hjá Íþróttahúsinu. Síðar kom í ljós að deildin þyrfti meiri tíma í salnum en þar sem erfitt var að fá fleiri/lengri æfingtíma færði deildin sig í annað húsnæði. Í dag eru allar æfingar félagsins að Borgarflöt 5 og loksins er hægt að koma til móts við iðkendur með því að skipta upp hópnum eftir bæði aldri og getu.

Deildin býður upp á júdó og leiki fyrir tveggja til fimm ára börn, börn á yngsta stigi í grunnskóla, júdó fyrir mið- og unglingastig í grunnskóla, fullorðinsflokk, júdó fyrir fatlaða, fallæfingar fyrir alla og svo er opið dojo þar sem allir geta mætt og tekið gólfglímu, að auki er þrisvar í viku jóga hópur í salnum.

Þann 27. október bauð deildin bæjarbúum að skoða nýja æfingaaðstöðu og var í leiðinni með smá sýningu þar sem allir iðkendur fengu tækifæri á að sýna hvað þau geta. 2024 hefur, eins og undanfarin ár, verið mjög árangursrík hjá deildinni. Í janúar lenti Jóhanna María í öðru sæti á alþjóðlegu móti í Belgíu. Í mars varð Freyr Hugi (17 ára) með Caitlynn Morrie (14 ára) annar á Íslandsmeistaramóti í Kata í fullorðinsflokki og Caitlynn Morrie með Jóhönnu Maríu (12 ára) náði í fjórða sætið. Í apríl varð Harpa Sóllilja Íslandsmeistari í U15. Tveir iðkendur fóru í æfingarbúðir til Zagrebs. Í maímánuði var tæknimót og æfingarbúðir hjá JRB. Júdódeild Tindastóls vann alla sína flokka og skipaði meira að segja fyrsta til þriðja sætið.

Sumarið var notaður í keppnisundirbúning og í september var farið í æfingarbúðir til Köln. Í nóvember fóru þrír iðkendur í æfingabúðir til Edinborgar. Júdódeild Tindastóls vann til margra verðlauna á árinu 2024 og hefur vakið athygli fyrir að vera sérstaklega kurteist og virðingarfullt þegar mætt er á mót og í æfingabúðir.

Annika Líf Maríudóttir Noack

 

   

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir