Jólatréð girt af með pappakössum fyrstu jólin

Daði er Skagfirðingur, fæddur og uppalinn á bænum Víðiholti í Seyluhreppi hinum forna. Erna kemur frá Skagaströnd og á einnig ættir að rekja austur á land. AÐSEND MYND
Daði er Skagfirðingur, fæddur og uppalinn á bænum Víðiholti í Seyluhreppi hinum forna. Erna kemur frá Skagaströnd og á einnig ættir að rekja austur á land. AÐSEND MYND

ÉG OG GÆLUDÝRIÐ - Daði, Erna Ósk og hundurinn Alba

Daði Hlífarsson og Erna Ósk Björgvinsdóttir á Króknum eiga rosalega fallegan hvítan hund af tengundinni Samoyed en þeir eiga uppruna sinn að rekja til Síberíu. Þeir eru með tvöfaldan þykkan feld og voru upphaflega ræktaðir sem sleðahundar og til að smala hreindýrum. 

Hvernig eignuðust þið Ölbu? Alba er fædd í fimm hvolpa goti á Akureyri 21. maí 2019. Við sáum gotið auglýst á Facebook og höfðum samband við ræktandann og kynntum okkur. Ræktandinn kom og heimsótti okkur á Sauðárkrók til að kynnast okkur og heimilisaðstæðum nánar og í kjölfarið vorum við svo heppin að verða fyrir valinu sem eigendur Ölbu. Við fórum nokkur skipti að kíkja á hvolpana á Akureyri áður en við fengum svo að taka Ölbu með okkur heim 17. júlí 2019. Nafnið Alba var valið aðallega út af því að þeim þótti það fallegt en það hefur einnig tengingu við hvíta litinn og þýðir hvít á latnesku. Alba á líka ættbókarnafn hjá HRFÍ sem er valið af ræktandanum og er það Pearl en það er eingöngu notað þegar við förum með hana á hundasýningar.

       

 

Hvað er skemmtilegast og erfiðast við Ölbu? Alba er mjög skemmtilegur hundur og er nánast alltaf glöð en Samoyed hundar eru sérstaklega þekktir fyrir brosið sitt. Hún vill alltaf leika við allt og alla og það er ekki til dropi af grimmd í henni. Okkur þykir einna skemmtilegast að fara öll saman í góðan göngutúr þar sem Alba fær að hlaupa laus og allra best ef það er í miklum snjó og snjókomu, þá er mikið fjör og hún nýtur sín alveg í botn. Hún er líka mikið kúrudýr og á það til að sofa í hinum furðulegustu stellingum. Það erfiðasta við að eiga svona hund er að halda húsinu hreinu! Stórum og miklum feldi fylgir mikið hárlos á tímabilum en einnig berast oft ýmis óhreinindi inn með feldinum og loppunum eftir útiveru.

Eruð þið með einhverja sniðuga eða merkilega sögu af Ölbu? Hún er ótrúlega fyndin þegar hún vill ná athygli okkar hérna heima en þá fer hún inn á baðherbergi og sækir sér heila klósettrúllu og labbar með hana í kjaftinum í hringi í kringum borðstofuborðið grafalvarleg þangað til við veitum henni athygli. Hún á það einnig til að misskilja og halda að allt sem hreyfist vilji leika við Alba kampakát úti í náttúrunni. Til dæmis lömbin á vorin en ef hún kemst niður á tún í sveitinni þá hleypur hún á eftir þeim hring eftir hring þar sem hún heldur að það sé skemmtilegur leikur í gangi en greyið lömbin hlaupa dauðskelkuð undan henni.

 

Hafa skapast einhverjar sérstakar jólahefðir í kringum Ölbu? Við getum nú ekki sagt það, hún er náttúrulega bara búin að vera til yfir tvenn jól. Í fyrra fékk hún reyndar sérstakt jóladót, hreindýrabangsa, rétt fyrir jól til að reyna að hafa ofan af fyrir henni á meðan við borðum og opnum pakka. Hún var rosalega ánægð með það og það entist merkilega lengi. Það er því ekkert ólíklegt að hún fái nýtt svipað í ár. Svo höfum við baðað hana annað hvort á Þorláksmessu eða aðfangadegi svo hún sé hrein og fín yfir hátíðarnar.

Hvernig mynduð þið lýsa aðfangadegi hjá ykkur? Við byrjum yfirleitt alla frídaga á því að fara með hana út í göngutúr. Á aðfangadegi er líklegt að göngutúrinn verði alveg extra langur og góður ef veður leyfir. Svo er hún bara í rólegheitunum heima þar til við förum öll út í sveit í Víðiholt þar sem við eyðum vanalega jólunum. Ölbu finnst ekkert skemmtilegra en að fara í sveitina og hún veit hvert við erum að fara um leið og við beygjum inn afleggjarann. Hún fær því að hlaupa aðeins um laus og leika sér þegar við komum. Hún reynir svo yfirleitt að sníkja af öllum við matarborðið og nær alltaf að sannfæra einhvern um að gefa sér smá hamborgarhrygg. Þegar kemur að pakkaopnun situr hún svo yfirleitt bara og fylgist með eða leggur sig jafnvel, hún sýnir þessu
ekki neinn sérstakan áhuga nema kannski að leika sér með ruslið sem fylgir pökkunum.

Hvernig kann hún að meta þessa fyrirhöfn? Hún finnur nú ekki mikið fyrir þessu held ég. Fyrstu jólin hennar var hún reyndar mjög meðvituð um jólatréð og skreytingarnar á því en hún stundaði það ítrekað að nappa neðstu kúlunum af trénu sem hún náði auðveldlega í og leika sér með þær þar til þær brotnuðu eða beygluðust og endaði það með því að jólatréð það árið var girt af með pappakössum, ferðatöskum og tilfallandi hlutum og var því ekkert sérlega mikil heimilisprýði. Hún er sem betur fer vaxin upp úr slíkum prakkarastrikum.

Hvað finnst fjölskyldumeðlimum um jólahefðir Ölbu? Þar sem enn hafa ekki neinar sérstakar hefðir myndast þá er eitthvað lítið um það að segja. Þau taka allavega vel á móti henni fram í sveit á aðfangadag og er hún eini heimilishundurinn í fjölskyldunni og fær því yfirleitt fullmikið dekur.  

Feykir þakkar þeim Daða og Ernu Ósk kærlega fyrir að svara spurningunum í Ég og gæludýrið...

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir