Jólatré Blönduósinga fengið úr Gunnfríðarstaðarskógi

Dansað í kringum jólatréð á Blönduósi. MYND: BLÖNDUÓS.IS
Dansað í kringum jólatréð á Blönduósi. MYND: BLÖNDUÓS.IS

Þann 1. desember voru ljós tendruð á jólatrénu við Blönduóskirkju en vegna sóttvarnatakmarkana var ekki hefðbundin dagskrá á Blönduósi frekar en víðast hvar annars staðar. Einhverjir verða þó að mæta og það voru krakkarnir á Fjallabæ og Stóra Fjallabæ á Leikskólanum Barnabæ ásamt starfsfólki sem mættu galvösk til leiks, komu og sungu og dönsuðu í kringum jólatréð góða.

Valdimar sveitarstjóri ávarpaði samkomuna í byrjun og jólasveinarnir kíktu við, dönsuðu með krökkunum, gáfu þeim mandarínur og tóku létt spjall. Tréð var fengið úr Gunnfríðarstaðarskógi og er af tegundinni Sitka greni. Tréð er rúmir níumetrar á hæð og eru trén flutt árlega úr skóginum með vörubíl og sett upp á kirkjuhólinn af starfsmönnum þjónusutumiðstöðvarinnar.

Gunnfríðarstaðarskógur

Það er Skógræktarfélag Austur-Húnvetninga sem er ábyrgðaraðili Gunnfríðarstaðaskógs. Árið 1961 fékk félagið jörðina Gunnfríðarstaði á Bakásum að gjöf og hóf gróðursetningu strax árið eftir. Jörðin hafði þá verið í eyði í allmörg ár. Gefendurnir voru hjónin Helga Jónsdóttir og Steingrímur Davíðsson. Skógurinn er til móts við Holtastaði sem eru fyrir miðjum Langadal, eða handan Blöndu þegar þjóðvegur 1 er ekinn.

Fyrstu fjögur árin voru gróðursettar um 74 þúsund trjáplöntur en ekkert var sett niður árið 1966 vegna baráttu við grasið. Fram að árinu 2000 voru gróðursettar um 200 þúsund trjáplöntur sem í dag mynda rúmlega 70 ha myndarlegan skóg. Frá árinu 2000 hefur fyrst og fremst verið plantað í Landgræðsluskógaverkefninu sem er á efri hluta jarðarinnar og hafa verið settar niður tæpar 100 þúsund plöntur eða samanlagt um 300.000 plöntur á 50 árum. Mest hefur verið sett niður af lerki, birki og stafafuru. Hafa ýmsir hafa komið að gróðursetningu. Margir sjálfboðaliðar úr sýslunni, verktakar, félagasamtök, fermingarbörn og ungmenni frá Blöndustöð.

Skógræktarfélag Austur-Húnvetninga er áhugafélag um skógrækt og gróðurvernd. Félagið var stofnað 14. maí 1944 á Blönduósi. Fyrstu árin var starfsemin aðallega bundin við að styðja félög og einstaklinga í skógrækt, en félagið kom að átján skógarreitum í sýslunni sem margir eru vöxtulegir í dag og má þar nefna Hrútey við Blönduós.

Heimildir: Skógargátt.is og Blönduós.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir