Jóhanna María úr Tindastól Íslandsmeistari í júdó
Þann 21. maí síðastliðinn fór Íslandsmeistaramót yngri flokka í júdó fram hjá júdódeild Ármanns í Reykjavík. Þar var keppt í aldursflokkunum U13, U15, U18 og U21. Þátttakendur voru alls 57 talsins eða 49 drengir en aðeins átta stúlkur.
Júdódeild Tindastóls mætti með einn þátttakanda í flokki U13, -36 kg, Jóhönnu Maríu Grétarsdóttur Noack. Því miður urðu nokkrir efnilegir júdóiðkendur Tindastóls að hætta við þátttöku vegna fyrirvaralítilla og síendurtekinna frestana mótsins sem gerði alla skipulagningu þátttakenda mjög erfiða.
Enginn stúlka var í þyngdar- og aldursflokki Jóhönnu Maríu og var hún því færð í flokk U13 -38 kg drengja. Flokkurinn samanstóð af þremur keppendum sem hver um sig glímdi tvær viðureignir.
Í fyrri viðureign sinni atti Jóhanna María kappi við Hlyn Davíðsson frá Selfossi. Hún glímdi taktískt og vann með waza ari skori í venjulegum glímutíma. Í seinni viðureigninni var mótherjinn Hróar Dagbjartsson, einnig frá Selfossi, og fór sú glíma í framlengingu því eftir tveggja mínútna venjulegan glímutíma var staðan jöfn. Í framlengingu vinnur sá sem skorar fyrr stig, svokallað gullskor, og því var mikilvægt að halda haus og ná að nýta síðustu orkuna á sem bestan hátt. Eftir tæpar fjórar mínútur tókst Jóhönnu Maríu að næla í waza ari og þar með var Íslandsmeistaratitillinn í höfn. Nýkrýndi Íslandsmeistarinn ásamt þjálfara og stuðningsmönnum gátu því slakað á og notið þess sem eftir lifði móts.
Júdódeild Tindastóls vonast til að senda fleiri iðkendur til keppni á Íslandsmeistaramót næsta árs enda mjög efnilegir og hæfileikaríkir júdóiðkendur í æfingahópnum.
Hin sænska Elvira Dragemark, sem starfaði áður sem þjálfari júdódeildar Tindastóls á vorönn 2021, mun vera með júdónámskeið á Sauðárkóki í júlí í sumar og hún mun einnig vera júdódeildinni innan handar næsta vetur. Það er mjög ánægjulegt að svo reyndur og öflugur þjálfari skuli geta starfað með júdódeild Tindastóls fram á næsta vor.
/Annika Noack
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.