Jákvæður viðsnúningur hjá Húnaþingi vestra

Frá Hvammstanga sumarið 2016. MYND: ÓAB
Frá Hvammstanga sumarið 2016. MYND: ÓAB

Húnahornið greinir frá því að Húnaþing vestra hafi í fyrra skilað 77,6 milljón króna rekstrarafgangi og er það umtalsvert betri niðurstaðan en fjárhagsáætlun ársins með viðaukum gerði ráð fyrir. Samkvæmt henni var gert ráð fyrir 86 milljón króna neikvæðri rekstrarniðurstöðu. Helsta skýringin er söluhagnaður rekstrarfjármuna sem nam 64,4 milljónum. Árið 2022 var rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins neikvæð um 86 milljónir.

„Ársreikningur Húnaþings vestra 2023 var lagður fram til seinni umræðu á sveitarstjórnarfundi á miðvikudaginn. Samkvæmt honum er skuldahlutfallið 68,4% samanborið við 83,6% árið 2022. Í hefðbundnu árferði ber sveitarfélögum að sjá til þess að heildarskuldir og skuldbindingar sveitarsjóðs og undirfyrirtækja séu ekki hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum. Húnaþing vestra er því langt undir því marki. Langtímaskuldir voru 962,9 milljónir í árslok 2023 samanborið við 1.002,2 milljónir árið 2022. Fjárfestingar í fyrra námu 194,9 milljónir samanborið við 170,8 milljónir árið áður. Stærstu fjárfestingar ársins voru endurbætur lagna við íþróttamiðstöðina og lagning nýrrar vatnsveitu til Laugarbakka.

„Niðurstaða ársreiknings er afar jákvæð og sýnir hraðari viðsnúning í rekstri í kjölfar heimsfaraldurs en vonast hafði verið til og það þrátt fyrir óhagstætt efnahagsumhverfi. Þetta má að mestu leyti þakka skynsamri fjármálastjórn undanfarinna ára, lágmarks lántökum og almennri ráðdeild í rekstri,“ segir í bókun sveitarstjórnar.

Heimild: Húnahornið

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir