Jafnt í hörkuleik á Siglufirði um helgina

Frábær skemmtun var á Siglufjarðarvelli þegar Hvöt kom í heimsókn í 2. deild karla. Sex mörk litu dagsins ljós, nokkur gul spjöld, þrjú víti, mikil barátta og mikil spenna.

KS/Leiftur komust yfir á 8. mínútu með sannkölluðu glæsimarki, Milan fékk þá boltann fyrir utan teig og setti hann með hnitmiðuðu skoti í mark andstæðinganna, óverjandi fyrir markmann Hvatar. Mínútu síðar sleppur framherji Hvatar í gegnum vörn heimamanna og Nezir markmaður brýtur á honum og víti dæmt.  Jón Kári skoraði af öryggi úr vítinu.  Á tuttugustu mínútu sleppur Jón Kári í gegnum vörnina og Nezir ver vel frá honum, boltinn virtist vera í höndum Nezirs, en hann nær ekki að halda honum og Jón Kári potar boltanum yfir línuna. Hörður Már sleppur í gegnum vörn  Hvatar og stendur af sér tæklingu inní teig en markmaður Hvatar ver frá honum. Staðan í hálfleik 1-2 fyrir Hvöt.

KS/Leiftur byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og pressuðu lið Hvatar. Á 51. mínútu sleppur Hörður Már í gegn og hann er felldur af markmanni Hvatar. Dómari leiksins dæmir umsvifalaust víti, en á einhvern óskiljanlegan hátt gefur hann markmanninum ekki rautt spjald. Þarna var dómarinn ekki að fara eftir knattspyrnulögunum….. Milan skoraði af öryggi  sitt annað mark úr vítinu. Nú stefndi í spennandi leik, Raggi Hauks og Halldór Logi komu inná á 55. mínútu og KS/Leiftur hélt áfram að pressa. En eins og köld vatnsgusa dæmir dómarinn víti á KS/Leiftur. Einn varnarmanna KS/Leifturs er að taka á móti bolta á vítateigsjaðrinum undir engri pressu og boltinn hrekkur í hönd hans, mjög ódýrt víti og aftur er dómari leiksins að sleppa því að fara eftir knattspyrnulögunum. Jón Kári fullkomnaði þrennu sína með öruggu víti.

KS/Leiftur hélt áfram að pressa og á 71. mínútu skorar Raggi Hauks gott mark eftir vel útfærða sókn heimamanna. Næstu mínútur á eftir fengu KS/Leiftur góð tækifæri til að klára leikinn. Kristján varnarmaður á skalla sem markmaður Hvatar ver glæsilega í horn, Raggi á skalla úr ákjósanlegu færi sem rétt fer yfir markið. Inn vildi boltinn ekki.

Hvatarmenn áttu svo síðustu mínúturnar og var mark dæmt af þeim á lokasekúndunum eftir að brotið hefði verið á Nezir inní markteig.

Hvöt er nú í 4. sæti deildarinnar með 15 stig Næstu leikur Hvatarliðsins er gegn Aftureldingu n.k. laugardag kl. 14:00.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir