Ítrekuðu kröfu um byggðakvóta og takmörkun á dragnótaveiðum

Séð yfir gamla bæinn og hafnarsvæðið á Sauðárkróki. MYND: ÓAB
Séð yfir gamla bæinn og hafnarsvæðið á Sauðárkróki. MYND: ÓAB

Aðalfundur Drangeyjar – smábátafélags Skagafjarðar var haldinn 11. september síðastliðinn. Samþykktu fundarmenn tíu ályktanir og meðal annars var ítrekuð krafa um takmörkun á dragnótaveiðum á Skagafirði í samræmi við fyrra fyrirkomulag veiðanna, þ.e. að svæðinu innan línu úr Ásnefi í vestri í Þórðarhöfða/Kögur í austri verði lokað fyrir veiðum með dragnót. Þá leggur Drangey áherslu á að byggðakvóta í Skagafirði verði einungis úthlutað dagróðrabáta sem eru minni en 30 brt.

Í sömu ályktun er þess krafist að aldrei verði meira en 20% af byggðakvóta á Sauðárkróki úthlutað til hvers útgerðarfyrirtækis. „Verði vinnsluskyldu í heimabyggð á mótframlagi byggðakvótans krafist verði tryggt að markaðsverð greiðist fyrir landaðan afla,“ segir í ályktuninn.

Þá skorar Drangey á hafnaryfirvöld að bæta sem fyrst aðstæður til að taka upp báta á svæðinu norðan smábáta­hafnarinnar á Sauðárkróki. Þá óskar félagið eftir því að öryggisvöktun við smá­báta­höfnina verði aukin með fjölgun öryggismyndavéla og bættri lýsingu við hana.

Einnig fagnar aðalfundur Drangeyjar góðri þjónustu og aðstöðu Fiskmarkaðs Sauðárkróks sem opnaði vorið 2023.

Aðrar ályktanir fundarins voru eftirfarandi:

  • Aðalfundur Drangeyjar - smábátafélags Skagafjarðar mótmælir harðlega ítrekaðri stöðvun strand­veiða í júlí. Skorar félagið á stjórnvöld að fara að lögum um þessar veiðar og að þær séu leyfðar tiltekinn dagafjölda á mánuði í fjóra mánuði þ.e. maí, júní, júlí og ágúst. Með því verði jafnræði tryggt milli útgerða og veiðisvæða umhverfis landið, auk þess sem þessar veiðar verði fyrir­sjáanlegar fyrir sjómenn, fiskkaupendur og aðra sem hafa af þeim atvinnu.
  • Aðalfundur Drangeyjar skorar á stjórnvöld að gera strandveiðar óháðar aflamarkskerfinu og koma þannig að nokkru til móts við álit mannréttindanefndar SÞ frá árinu 2007.
  • Aðalfundur Drangeyjar-smábátafélags Skagafjarðar telur ljóst að vísindalegar for­sendur veiði­ráð­­gjafar Hafrannsóknastofnunar í öllum fiskitegundum hafa engan veginn staðist og skýringar stofnunarinnar ótrúverðugar og án viðunandi rök­stuðnings. Styður félagið framkomnar hugmyndir um eflingu rannsókna á lífríki hafsins og samspili nytjastofna þess og einnig að rannsóknir og ráðgjöf verði aðskilin.
  • Aðalfundur Drangeyjar hvetur stjórnvöld til að draga úr heimildum til togveiða á grunnslóð umhverfis landið, enda samræmist það alþjóðlegri stefnu um aukin verndarsvæði í hafi. Þá skorar félagið á stjórnvöld að endurskoða heimildir til veiða með dragnót upp í fjörur víða um land.
  • Aðalfundur Drangeyjar leggur áherslu á að línuívilnun verði ekki skert enda hún forsenda fyrir útgerð smærri línubáta.
  • Aðalfundur Drangeyjar – smábátafélag Skagafjarðar krefst þess að flotvörpuveiðum á Íslands­miðum verði tafarlaust hætt enda vel þekkt að mikill meðafli, ekki síst grásleppuseiði og aðrar tegundir smáfiskjar, kemur í veiðarfærið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir