Íslandsmeistarinn í götubita á Króknum í dag
Nýkrýndur Íslandsmeistari í Götubita fólksins 2022, Silli kokkur, mætir með veitingavagninn á planið hjá Gylfa Ingimars við Hegrabrautina á Króknum í dag, miðvikudaginn 20. júlí, og það ekki í fyrsta skipti. Silli fer annað veifið hringferð um landið með veitingavagninn en þetta ku vera fyrsta giggið hans eftir að hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn í þriðja sinn.
Götubitinn er alltaf að verða vinsælli og um síðustu helgi fór fram keppnin um besta götubita landsins í Hljómskálagarðinum og gat fólk droppað í bæinn og smakkað það sem í boði var og kosið um besta bitann. Bæði dómnefnd og gestir komust að þeirri niðurstöðu að matarvagn Silla biði upp á besta götubitann. Hann keppir því fyrir Íslands hönd á stærstu götubitahátíð heims, European Street Food Awards, sem fer fram í Munchen í Þýskalandi í október.
Kona Silla, Elsa, er af grjóthörðum Króksættum, dóttir Fúsa Agga og Vigdísar Blöndal (Gæa Flóvents), og hún verður á staðnum sem og börn þeirra þannig að það verður vart þverfótað fyrir Skagfirðingum í veitingavagninum góða.
Lúgan verður opnuð á slaginu 12 og Silli og hjálparkokkar hans grilla besta götubitann 2022, Gæshamborgarann, ásamt öðrum sturluðum borgurum til 19:30 í kvöld. Þeir sem missa af meistaranum í dag verða að elta hann á Sigló á morgun!
Hér má sjá myndskeið á Vísir.is frá keppninni um síðustu helgi >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.