Ís kökur og einfaldir eftirréttir

Eftir guðdómlega jólamáltíðina er fátt sem gleður bragðlaukana meir en hinn fullkomni eftirréttur. Margir bjóða upp á það sama ár eftir ár en aðrir eru alltaf að leita að einhverju nýju til þess að prófa í ár. Við fórum á stúfana og fundum nokkrar dúndur uppskriftir sem sóma sér vel sem eftirrétturinn þessi jólin.

Koníaksbættur rjómi

Fullkomin viðbót við jólaísinn eða ávextina

¼ lítri rjómi
2 msk flórsykur
2 eggjarauður
2 msk koníak

Aðferð: Flórsykur og eggjarauður þeytt vel saman og síðan er stífþeyttum rjómanum blandað varlega saman. Síðast er koníakið sett saman við og hrært varlega.
Heitar perur

1 dós perur
4 eggjahvítur
4 msk flórsykur
150 g súkkulaði

Stífþeytið saman eggjahvítur og flórsykur. Takið eldfast mót og raðið perunum í botninn og þekið því næst með eggjahvítumassanum. Bakað við 110 gráður þangað til massinn hefur tekið fallegan lit. Súkkulaðið er brætt og hellt yfir. Kakan er síðan borin fram með ís.
Snickers ís

5 dl rjómi
100 g púðursykur
1 tsk vanillusykur
4 stk snickers smátt söxuð
4 eggjarauður

Eggjarauður og púðursykur er þeytt vel saman. Vanillusykri bætt saman við. Því næst er rjóminn þeyttur og bætt ásamt snickersinu varlega saman við. Sett í form og fryst.

Rommkúluís

6 eggjarauður
6 eggjahvítur
½ bolli sykur
Vanillusykur
2 pelar rjómi  
100 g rommkúlur

Eggjarauður þeyttar saman við sykurinn. Rommkúlum og vanillu bætt saman við. Rjóminn þeyttur og rommkúlublöndunni blandað varlega saman við. Eggjahvíturnar stífþeyttar og blandað út í. Sett í fallegt form og fryst í sólahring.
Rommý ísterta

2 eggjarauður
3 msk sykur
1 peli rjómi
½ dl kalt kaffi
5 stk Rommý
Eggjarauður og sykur er þeytt vel saman í hvítan massa. Rjóminn þeyttur og Rommýið brytjað smátt. Öllum blandað varlega saman og fryst.

Ananas ís

4 eggjarauður
2 dl sykur
1 msk vanillusykur
1/2 ltr rjómi
1 lítil dós ananaskurl
200 gr rjómasúkkulaði
Sítrónusafi

Þeytið saman eggjarauður, sykur og vanillusykur. Ef blandan er mjög þykk má setja smá af ananassafanum útí. Rjóminn er þeyttur og blandað saman við eggjahræruna. Skera súkkulaðið í litla bita og setja útí blönduna ásamt ananaskurlinu. Að lokum er svo settur smá sítrónusafi til að bragðbæta.
Súkkulaði ostakaka

110 gr. mulið hafrakex
75 gr. bráðið smjör

400 gr.Rjómaostur ( 1 askja )við stofuhita.
5 msk. rjóma
1 bolli sykur
1/2 bolli kakó
1/2 tesk. kanill
3 egg

Hafrakex og smjör er hrært vel saman og sett í botninn á lausbotna kökuformi. Gott að smyrja formið að innan með feiti. Bakað inní ofni við 180 gráður í 8 mín. tekið út úr ofninum og kælt örlítið.
Rjómaostur og rjómi er hrært vel saman, því næst er sykur, kakó og kanill sett útí og síðast eggin, hrært allt saman í ca. 2 mín. Blöndunni hellt yfir hafrakexbotninn og sett í ofninn ( 180°C ) og bakað í ca. 25-35 mín. Kakan lyftir sér vel í ofninum þess vegna verða að vera háar brúnir á forminu, en það er eðlilegt að hún falli fljótlega eftir að hún er tekin út.
Skreytt með þeyttum rjóma og súkkulaðispæni

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir