Íbúðirnar tilbúnar til útleigu á næstu vikum

Loks sér fyrir endann á framkvæmdum við bygginguna en að undanförnu hefur verið unnið við frágang á lóð umhverfis húsið.   MYNd: ÓAB
Loks sér fyrir endann á framkvæmdum við bygginguna en að undanförnu hefur verið unnið við frágang á lóð umhverfis húsið. MYNd: ÓAB

Margir hafa eflaust klórað sér í kollinum yfir byggingu fjölbýlishússins dökklitaða á Freyjugötureitnum á Sauðárkróki. Bygging hússins hófst snemma árs 2021 og átti allt að vera klappað og klárt að hausti. Það styttist í að framkvæmdir hafi tekið fjögur ár og reglulega hefur Feykir birt af því fréttir að örstutt sé í að íbúðirnar færu á markað. Hingað til hefur það ekki reynst svo en nú hefur Feykir eftir Einar Georgssyni, framkvæmdastjóra Brákar íbúðafélags sem á bygginguna, að íbúðirnar verði tilbúnar í útleigu á næstu vikum.

Um er að ræða átta íbúða hús, með fjórum 3ja herbergja íbúðum og fjórum 2ja herberja íbúðum. „Eins og þú kemur inn á þá styttist í að eignirnar verði tilbúnar og væntum við þess að þær verið tilbúnar til útleigu á næstu vikum. Eignin og lóð verður fullfrágengin,“ sagði Einar þegar Feykir spurði hvort það passaði að nú styttist í að allt yrði klárt.

Þegar farið var af stað í framkvæmdirnar stóð til að byggja fleiri svipuð hús á reitnum en deiliskipulag svæðisins var í skoðun. Að sögn Einars hafa ekki verið teknar ákvarðanir um frekari uppbyggingu á svæðinu að svo stöddu.

Brák íbúðafélag hses. er húsnæðissjálfseignarstofnun sem stofnuð var árið 2022 af sveitarfélögum utan höfuð-borgarsvæðisins í þeim tilgangi að ná fram stærðarhagkvæmni sem næst ekki með litlum húsnæðissjálfseignastofnunum með fáar íbúðir í rekstri. Stofnendur Brákar eru nú orðnir 31 sveitarfélag. Brák er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum aðgengi að íbúðum í langtímaleigu með því að kaupa eða byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri og viðhaldi íbúðanna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir