Íbúar í Hegranesi í viðræðum við Skagafjörð um félagsheimilið

Félagsheimilið í Hergranesi. MYND INTERNETIÐ
Félagsheimilið í Hergranesi. MYND INTERNETIÐ
Íbúar og jarða- og lóðaeigendum í Hegranesi fóru á leit að Skagafjörður auglýsi ekki Félagsheimili Rípurhrepps til sölu heldur gangi til viðræðna við íbúa, jarða- og lóðaeigendur í Hegranesi um framtíð félagsheimilisins. Upplýst var í erindinu að fyrrgreindir aðilar hefðu í hyggju að stofna félagasamtök sem farið gætu með eignarhald og rekstrarumsjón hússins að undangengnum samningum við sveitarfélagið Skagafjörð og var samþykkt á fundi byggðarráðs að boða forsvarsmenn félagsins á fund ráðsins. Feykir setti sig í samband við Maríu Eymundsdóttur á Huldulandi í Hegranesi sem svaraði nokkrum spurningum fyrir hönd íbúanna. 
 

Eins og áður hefur komið fram tók Sveitarfélagið þá ákvörðun að selja þrjú félagsheimili og bauð byggðarráð íbúum uppá samtal varðandi fyrirhugaða sölu á félagsheimilinu í Hegranesi í framhaldi af því. Um 30 manns mættu á fundinn og höfðu flestir áhyggjur af því að selja ætti félagsheimilið hæstbjóðanda sem gæti breytt notum þess eftir sínum vilja og þörfum og Nesbúar sætu eftir félagsheimilislausir.

Þórarinn Leifsson kom þá með þá hugmynd að jarða- og lóðaeigendur í nesinu fengju félagsheimilið til varðveislu og sæu um rekstur þess. Sú hugmynd hlaut góðan hljómgrunn og hittust íbúar og sumarhúsaeigendur í félagsheimilinu til að ræða um stofnun Íbúasamtaka og hollvina Hegraness og urðu 46 einstaklingar stofnfélagar á þeim fundi og fleiri hafa bæst við síðar.

Íbúar í Hegranesinu sammála um að selja ekki félagsheimilið

Meirihluti heimila í Nesinu eru stofnfélagar í Íbúasamtök og hollvinir Hegraness og er mikill samhugur í fólki að félagsheimilið sé í eigu og/eða umsjón þeirra. Félagsheimili voru byggð á sínum tíma líka sem skólahúsnæði og áttu íbúar Hegraness mikið í byggingu félagsheimilisins, bæði í beinum kostnaði við efni en ekki síður í vinnu sem er ekki minna virði þó það komi hvergi fram í neinum eignasamningum.

Félagsheimili eru víða mikilvæg fyrir samfélög þar sem að þau veita stað fyrir íbúa til að koma saman og fagna saman og/eða syrgja saman. Þannig er staðan í Hegranesi og með því að láta íbúa og hollvini Hegranes fá félagsheimilið til varðveislu þá er verið að styrkja samkennd íbúanna þar sem að þeir bera sameiginlega ábyrgð á félagsheimilinu.

Hver er hugmynd íbúanna

Tilgangur samtakanna er að halda félagsheimilinu í notkun fyrir íbúa og félagsmenn og efla félagslíf þeirra. Í dag eru haldin þorrablót og litlu jól sem eru mjög vel sótt og þar heldur kvenfélag Rípurhrepps fundi sína. En þess má til gamans geta að kvenfélag Rípurhrepps er elsta kvenfélag á landinu og hefur verið mikill vöxtur í því á undanförnum árum. Saga kvenfélagsins er samofin félagsheimilinu þar sem þær hafa ekki eingöngu starfsemi sína í því heldur sáu kvenfélagskonur um að rækta kartöflur til sölu til að skaffa fjármagn fyrir bygginguna og allir bæir sköffuðu vinnumenn. Yfirsmiðir voru yfir verkinu á vegum hreppsins en íbúarnir unnu vinnuna. Það er því ekki furða þó að íbúar hafi taugar til félagsheimilisins sem var unnið í fullkominni samvinnuhugsjón og vilji er til að endurvekja.

Töluverður kostnaður felst í að hugsa um félagsheimilið svo vel sé. Þar er fastur kostnaður eins og fasteignagjöld, hiti og rafmagn en einnig breytilegur kostnaður í viðhaldi. Sá kostnaður er mestur í upphafi enda komin mikil viðhaldsskuld á húsinu þar sem oftast er sparað við minniháttar lagfæringar og beðið þar til í nánast í óefni er komið eða að minnsta kosti óásættanlegt ástand.

Til að koma til móts við þennan kostnað verða greidd félagsgjöld, leiga á félagsheimilinu, tekið við gjöfum og styrkjum og félagsmenn leggja til vinnudaga eftir þörfum. Má því segja að litið sé aftur til þess tíma þegar félagsheimilið var byggt þar sem samvinna og samkennd fólks var mikil til að vinna mikilvægt verk fyrir sveitina.

Stjórn Íbúasamtaka og hollvina Hegraness er búin að eiga fund með byggðarráði þar sem rætt er um möguleg afdrif og sölu á félagsheimilinu. Það hefur ekki enn verið tekin ákvörðun með hvaða hætti salan fer fram og hvort að það eigi að horfa á samfélagsáhrif sölunnar eða eingöngu krónutölu.

Á fundinum kom stjórnin því skýrt á framfæri að Íbúasamtök og hollvinir Hegraness hefðu ekki burði til að yfirbjóða einstaklinga sem hafa hug á að breyta notkun hússins. Hlutverk þess er ekki að græða þar sem um óhagnaðardrifið félag er að ræða þar sem stofnendur fá ekki arð heldur er tilgangur félaganna að lagfæra félagsheimilið, enda komin mikil viðhaldsskuld, og hafa stað fyrir íbúa til að skemmta sér saman innan sveitar.



Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir