Í sambúð með Árskóla
Tónlistarskóli Skagafjarðar á Sauðárkróki hefur nú verið fluttur í húsnæði Árskóla. Þar með er allt skólahald í sveitarfélaginu fyrir nemendur á Grunnskólaaldri komið undir eitt þak. Þessu var formlega fagnað á starfsmannafundi í Árskóla í gær, þar sem Óskar Björnsson, skólastjóri Árskóla, bauð Svein Sigurbjörnsson, skólastjóra tónlistarskólans, og hans starfsmenn velkomna í hópinn.
Flutningar hafa staðið yfir frá því skólahald hófst í haust og hefur Tónlistarskólinn meðal annars yfir að ráða þremur kennslustofum, auk rýmis fyrir flygil og skrifstofu á jarðhæð, ásamt rými í kjallara skólans. Í Tónlistarskólanum eru í vetur 60 nemendur á Sauðárkróki.
Í máli þeirra Óskar og Sveins kom fram að sambúðin byrjaði vel og menn væru ánægðir með þessar breytingar. Ásta Pálmadóttir ávarpaði einnig starfsmenn skólanna beggja og kom inn á hversu mikið hagræði það væri fyrir nemendur og foreldra að hafa skólastarf og tómstundir á einum stað, líkt og nú er orðið. Þess má geta að Íþróttahúsið á Sauðárkróki er sambyggt skólanum og því hæg heimatökin fyrir nemendur að fara á milli skóla og tómstundastarfs.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.