Í dag er 80 ára lýðveldisafmæli Íslands

Í dag, 17. júní, eru 80 ár liðin frá stofnun lýðveldisins og af því tilefni eru hátíðarhöld um allt land. Ekki láta íbúar á Norðurlandi vestra deigan síga í þeim efnum en vegleg dagskrá er á Sauðárkróki, Blönduósi og Hvammstanga í tilefni dagsins. Feykir óskar Íslendingum nær og fjær til hamingju með daginn.

Á Hvammstanga hefjast hátíðarhöldin á skrúðgöngu frá Hvammstangakirkju kl. 14:00. Þar mun fjallkonan flytja ávarp en í ár er það Emelía Íris Benediktsdóttir sem fær þann heiður og einnig mun Unnur Valborg, sveitarstýra, flytja hátíðarræðu. Að því loknu er fólk hvatt til að njóta samveru sunnan við Félagsheimilið því þar verður markaður, hoppukastali, andlitsmálun, leikvöllur fyrir krakka, sápurennibraut og grill. Einnig verður 10. bekkur með sjoppu á svæðinu. 
 

Viðamikil dagskrá er í Húnabyggð sem hefst kl. 11 í félagsheimilinu á Blönduósi en þar mun fjallkonan, Vilborg Líndal nýstúdent frá FNV, flytja ljóð, sveitastjórinn, Pétur Arason, flytur ávarp og Hugrún Lilja Pétursdóttir, Guðrún Tinna Rúnarsdóttir og Olga María Rúnarsdóttir verða með tónlistaratriði. Skrúðgangan fer svo frá félagsheimilinu að Húnaskóla kl. 13:30 og þar verður mikið fjölskyldufjör. Teymt verður undir hjá börnum, hoppukastali, andlitsmálning, Skralli trúður verður á svæðinu, vítaspyrnukeppni, kastleikir og sápurennibraut, ef veður leyfir. Nánari dagskrá má finna á Facebook-síðu Húnabyggðar.

Í Skagafirði verður hátíðar- og skemmtidagskrá á Sauðárkróki í tilefni af þjóðhátíðardegi Íslands. Í ár eru allir hvattir til að byrja daginn á hjólreiðatúr kl. 11 og vonandi sjást vel skreytt hjól á ferðinni. Skrúðgangan fer frá Safnahúsi Skagafjarðar við Faxatorgið kl. 13:30  en Skátarnir verða mættir kl. 12:30 til að bjóða upp á andlitsmálun fyrir yngri kynslóðina og verða þeir einnig með blöðrur og vinmyllur til sölu. Skrúðgangan leiðir okkur svo að Árskólalóðinni, nánar tiltekið sunnan við íþróttahúsið á lóð Árskóla, á Karnivalstemmningu, en þar mun Ómar Bragi Stefánsson halda hátíðarræðu, fjallkonan Lydía Einarsdóttir flytur ljóð,  Karlakórinn Heimir tekur nokkur lög, hoppukastalar, leikir og fjör, teymt undir börn, skátarnir verða með andlitsmálningu og söluvarning, hvolpasveitin mætir ásamt ýmsu öðru skemmtilegu. Nánari dagskrá má finna á Facebokk-síðu Skagafjarðar en einnig má geta þess að götukörfuboltamót verður á vellinum við Árskóla frá kl. 15 og er ennþá hægt að skrá sig til leiks

 Hér fyrir neðan er einnig hægt að sjá nánari dagskrá hjá Húnabyggð og Skagafirði.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir