Hvatningarverðlaun til Grunnskólans austan Vatna

Mbl.is segir frá því að Félag íslenskra kennara í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt veittu í dag Ritu Didriksen og Grunnskólanum austan Vatna viðurkenningu fyrir fyrirmyndarframboð á nýsköpunar- og frumkvöðlamennt í skólanum. Rita og starfandi skólastjóri grunnskólans Jóhann Bjarnason tóku við hvatningarverðlaununum.

Í frétt Mbl.is segir: -Grunnskólinn austan Vatna er með starfstöðvar á Hofsósi, Hólum í Hjaltadal og Sólgörðum í Fljótum. Í skólanum fá nemendur nýsköpunarkennslu í 5.-7.bekk þar sem þau eru þjálfuð í grunnaðferðum nýsköpunarmenntar. Í eldri bekkjum er frumkvæði og nýsköpun efld enn frekar gegnum verkefnin: Reyklaus í 8.bekk; Rekstur kaffihúss í 9.bekk og í 10.bekk verkefnið Verðmætasköpun í Héraði.

Í rökstuðningi félagsins fyrir veitingu hvatningarverðlaunanna segir: „Undir forystu Ritu hefur Grunnskólinn austan Vatna unnið að uppbyggingu nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar við skólann. Hún hefur með áhuga sínum og krafti fengið flesta kennara skólans og stjórnendur til að vinna sameiginlega að því að byggja upp og sinna nýsköpunar- og frumkvöðlamennt. Námsframboð skólans er ekki einhver skrautfjöður sem boðin er einu sinni í stuttan tíma heldur úthugsuð samfella og með góðan stíganda í náminu.“

Þá segir að með því að bjóða slíka menntun sýni skólinn framsýni og metnað til að mennta nemendur sína til að takast á við nútímalíf, styrkja þá til frumkvæðis og nýsköpunar í eigin lífi, atvinnulífi og samfélagi og auk þess að búa þau á öflugan hátt undir framhaldsskólanám.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir