Húsvíkingar kvöddu Hvammstanga með stigin þrjú í farteskinu
Það var leikið á Sjávarborgarvelli á Hvammstanga í gærkvöldi í 2. deild Íslandsmótsins – mögulega í fyrsta skipti. Það voru vaskir Völsungar sem mættu til leiks gegn heimamönnum í Kormáki/Hvöt. Húsvíkingar hafa jafnan haft á að skipa góðu fótboltaliði og þeir reyndust sterkari aðilinn í þetta skiptið og skiluðu sér heim á Húsavík með þrjú dýrmæt stig í pokahorninu. Lokatölur 1-3.
Bæði lið áttu sénsa á upphafsmínútunum. Mark var réttilega dæmt af gestunum sökum rangstæðu en í kjölfarið fengu heimamenn dauðafæri sem ekki nýttust. Lið Völsungs náði síðan forystunni á 34. mínútu en þá skallaði Juan Hermida boltann í markið eftir góða sókn. Á Hvammstanga eru menn fljótir að kvitta fyrir sig og það gerði Kristinn Bjarni fimm mínútum eftir mark gestanna, slapp inn fyrir vörnin og skoraði af öryggi. Húsvíkingar voru meira með boltann fram að hléi en Goran var þó nálægt því að koma heimamönnum yfir með góðri aukaspyrnu. Jafnt í hálfleik.
Völsungur lék með vindinn í bakið í síðari hálfleik og þeir héldu áfram að halda vel í boltann en þó án þess að skapa sér færi. Heimamenn vildu fá víti þegar þeir töldu brotið á Kristni en uppskáru aðeins hornspyrnu. Á 80. mínútu fengu gestirnir hornspyrnu og Inigo Arruti skallaði boltann í markið og sjö mínútum síðar tryggði Steinþór Þorsteinsson Völsungi sigurinn en hann renndi boltanum í netið eftir að Uros í marki Kormáks/Hvatar hafði slegið boltann út í teiginn. Heimildir Feykis herma að Uros hafi blindast af sólinni sem skín víst sem fyrr extra sterkt í Húnaþingi – og reyndar í Húnabyggð líka.
Húsvíkingar stálu því að þessu sinni nokkrum sólargeislum úr Húnaþingi og styrktu stöðu sína í toppbaráttunni. Keppni í 2. deildinni er ansi jöfn og einn sigur getur lagað stöðu liðs töluvert. Húsvíkingar eru nú í þriðja sæti með 16 stig en lið Kormáks/Hvatar í sjöunda sæti með 11 stig þegar tveir leikir af sex hafa verið leiknir í níundu umferð. Það getur því margt breyst eftir leiki dagsins í dag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.