Hústaka á Sauðárkróki
Þorsteinn Baldursson, íbúi við Sæmundargötu á Sauðárkróki, segir farir sínar ekki sléttar en hann lenti í óvæntu skaki þegar hann ætlaði að afhenda hús sitt nýjum eiganda – hústökumaður neitar nefnilega að yfirgefa húsið.
Forsaga málsins er sú að Þorsteinn bauð fyrir ári síðan erlendum manni, sem bjó við hrörlegar aðstæður á Sauðárkróki, að búa í hluta af húsi sínu ásamt því að nýta sér alla aðstöðu hússins gegn vægu gjaldi eða þangað til hann fyndi sér annan stað til að búa á. Til stóð að selja húsið og lítið að frétta í þeim efnum framan af þangað til nú í júní þegar húsið var selt.
Maðurinn var upplýstur um gang mála áður en tilvonandi kaupendur mættu til að skoða og eins þegar gengið hafði verið frá sölu og til stóð að afhenta húsið þrem mánuðum frá sölu þess. Maðurinn gerði ekkert í því að verða sér út um annað húsnæði, sem var umsamið frá því Þorsteinn bauð honum herbergið í upphafi.
Nú neitar maðurinn að fara. Þorsteinn sagði Feyki að hann hafi haft samband við félagsmálayfirvöld á Sauðárkróki, lögreglu og fasteignasala og fékk allsstaðar sömu svör – enginn gat aðhafst neitt í stöðunni. Í gær greip Þorsteinn til sinna ráða og skipti um sílinder í húsinu.
Hann segir manninn í raun vera kominn með sig í gíslingu, hann hafi ekkert sýnt honum annað en góðmennsku og stuðning er nú sé hann orðinn hústökumaður því hann neiti að yfirgefa húsið. Þorsteinn byrjaði í gær að henda út ruslinu sem manninum fylgdi svo hann gæti afhent nýjum eigendum húsið en þá hringdi maðurinn á lögregluna sem stöðvaði Þorstein við að koma manninum út úr húsinu sem hann er búinn að selja.
Það er því óhætt að segja að Þorsteinn sé í frekar vonlausri stöðu og eina sem honum hefur verið bent á að gera er að finna sér lögfræðing til að aðstoða sig við að koma manninum út.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.