Húnvetningar upp fyrir miðju
Kormákur/Hvöt og Tindastóll voru í eldlínunni í fótboltanum í dag og spiluðu bæði á útivelli. Húnvetningar nældu í mjög mikilvæg þrjú stig suður með sjó en Stólarnir urðu að sætta sig við jafnan hlut í leik sínum gegn Árborg á Selfossi.
Þróttur Vogum - Kormákur/Hvöt 0-1
Lið Kormáks/Hvatar lék við lið Þróttar á Vatnsleysuströndinni en þeir Vogamenn voru sæti ofar Húnvetningum þegar flautað var til leiks. Þeir voru það áfram þangað til á 89. mínútu að sigurmarkið leit dagsins ljós en það gerði Artur Jan Balicki en kappinn hafði ekki skorað síðan 6. apríl þegar hann gerði bæði mörk liðs síns í Mjólkurbikarnum. Þar með hoppuðu Húnvetningar upp í sjötta sæti 2. deildar þegar leiknar hafa verið átta umferðir.
Árborg - Tindastóll 1-1
Stólarnir áttu sömuleiðis erfiðan leik fyrir höndum í dag þegar þeir heimsóttu JÁVERK-völlinn á Selfossi þar sem lið Árborgar beið þeirra. Liðin voru fyrir leik með ellefu stig í þriðja og fjórða sæti en Stólarnir með betra markahlutfall. Sú staða breyttist ekkert að leik loknum því liðin skildu jöfn, gerðu sitt hvort markið. Sverrir fyrirliði kom sínum mönnum yfir um miðjan síðari hálfleik en heimamenn jöfnuðu um tíu mínútum síðar.
Næst eiga Stólarnir heimaleik gegn KÁ næstkomandi laugardag á Sauðárkróki en Kormákur/Hvöt fá lið Völsungs í heimsókn á föstudag og verður leikurinn spilaður á Sjávarborgarvelli á Hvammstanga. Húsvíkingar eru tveimur sætum ofar með 13 stig en Kormákur/Hvöt er með ellefu. Sigur væri því sætur á Sjávarborgarvelli.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.