Húnvetningar styrkja hópinn
Lið Kormáks/Hvatar hefur spilað fjóra leiki í Lengjubikarnum og á einn leik eftir sem fara átti fram um síðustu helgi á Greifavellinum á Akureyri en var frestað. Í þeim fjórum leikjum sem búnir eru hefur liðið krækt í tvö jafntefli en tapað tveimur leikjum og er því á botni 4 riðils í B-deild keppninnar.
Báðir tapleikirnir enduðu 3-0, fyrst gegn Magna og nú síðast á móti liði KFA en báðir voru leikirnir spilaðir í Boganum á Akureyri. Húnvetningarnir gerðu 2-2 jafntefli gegn Völsungi á PCC-vellinum á Húsavík og sömuleiðis 2-2 jafntefli í leik gegn KF (Fjallabyggð) á Króknum.
Lið Kormáks/Hvatar er enn að sanka að sér leikmönnum fyrir sumarið í 2. deildinni en fyrsti leikur liðsins fer fram laugardaginn 4. maí á Selfossi.
Í síðustu viku bættu Húnvetningar við sig miðverðinum Sérgio Francisco Uolú - Serginho sem er frá Portúgal. „Kappinn er tæpir 190 sentímetrar frá jörðu, stór og stæðilegur brimbrjótur sem mikils er vænst af. Hann lék í fyrra nokkra leiki með Þrótti frá Reykjavík í Lengjudeildinni, en hefur áður leikið í heimalandinu og í 3. deild Noregs. Serginho er mikill íþróttamaður, snöggur og snar, ásamt því að vera tæknilega sinnaður í sinni nálgun á leikinn fagra. Bjóðum hann velkominn í bleikt og hlökkum til að sjá hann á velli!“ segir í frétt á Aðdáendasíðunni góðu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.