Húnvetningar og Ólsarar deildu stigunum
Það var hart tekist á á Blönduósvelli í gær þegar lið Kormáks/Hvatar tók á móti einu af toppliðum 2. deildarinnar, Víkingi Ólafsvík, sem ekki fyrir margt löngu léku listir sínar í efstu deild Íslandsmótsins. Gestirnir náðu forystunni rétt fyrir hlé en heimamenn jöfnuðu þegar langt var liðið á leikinn. Lokatölur því 1-1.
Það var Lois Romero Jorge sem kom Víkingi yfir á markamínútunni (43.) og Ólsarar með forystuna í hálfleik. Artur Jan Balicki jafnaði síðan úr öruggri vítaspyrnu á 78. mínútu. Á lokamínútum leiksins var markverði gestanna, Ómari Einarssyni, sýnt rauða spjaldið og skömmu síðar hlaut varamaðurinn Aron Gauti Kristjánsson sömu örlög. Varamarkvörður gestanna fékk því að spóka sig á Blönduósvelli í einhverjar sekúndur áður en dómarinn flautaði til leiksloka.
Stigið tryggði heimamönnum áframhaldandi setu í áttunda sæti 2. deildar en Víkingur er áfram í öðru sæti deildarinnar. Næst bregða Húnvetniingar sér austur á Reyðarfjörð og leika innanhúss við Austfirðinga í Fjarðabyggðarhöllinni nú á sunnudaginn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.