Hungraðir Húnvetningar hirtu stigin í toppslagnum
Það var stórleikur á Blönduósvelli í dag þegar að segja má hreinn úrslitaleikur um sæti í 2. deild fór fram. Heimamenn í Kormáki/Hvöt tóku þá á móti liði Árbæjar sem var tveimur stigum á eftir og hafði verið á mikill siglingu í deildinni, höfðu unnið í það minnsta fjóra leiki í röð og á meðan bleiki valtarinn var farinn að hiksta. Heimamenn komu lemstraðir til leiks með tvo lykilmenn í banni og urðu að planta fyrirliðanum í markið. Tvívegis náðu gestirnir forystunni í leiknum en heimamenn gáfust ekki upp frekar en fyrri daginn, jöfnuðu í tvígang og hirtu síðan öll stigin í uppbótartíma. Lokatölur því 3-2 og ævintýri Húnvetninga heldur áfram.
Sem fyrr segir var fyrirliðinn, Sigurður Bjarni Aadnegard, sem alla jafna stendur vaktina úti á vellinum, kominn í markið í stað Uros Djuric sem fékk rautt spjald að leik loknum í Sandgerði á dögunum. Hann kom ekki í veg fyrir að gestirnir kæmust yfir þegar Aron Bjarki Arnarson skoraði eftir 31 mínútu og staðan 0-1 í hálfleik þar sem lið Árbæjar hafði stjórnað ferðinni.
Síðustu tuttugu mínútur leiksins reyndust ansi spennandi og fullar af hasar. Papa Tecagne jafnaði leikinn 73. mínútur þegar hann fylgdi eftir skoti sem markvörður gestanna hafði varið. Stuttu síðar varði Siggi boltann í slá og yfir í annað skiptið í leiknum en úr horninu komust Árbæingar yfir að nýju en markið gerði Jonatan Belányi á 79. mínútu. Það tók heimamenn aðeins tvær mínútur að jafna á ný og þar var á ferðinni Atli Þór Sindrason eftir sendingu frá Papa. Á fimmtu mínútu uppbótartíma gerði síðan Orri Arason sigurmark Kormáks/Hvatar með föstu skoti utan teigs.
Magnaður endurkomusigur og ekki sá fyrsti í sumar hjá Húnvetningum. Það lítur ekki út fyrir að nokkuð fái stöðvað liðið í að næla í sæti í 2. deild sem yrði hreint magnaður árangur og glæsilegt afrek. Næsti leikur liðsins verður á Grenivík næstomandi laugardag og laugardaginn þar á eftir kemur lið Augnabliks í heimsókn í síðustu umferðinni. Langt frá því léttir leikir en er einhver að fara að stöðva Húnvetninga? Varla.
Heimild: Aðdáendasíða Kórmáks á Facebook og ksi.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.