Humar, skötuselur og guðdómleg súkkulaðikaka

Fyrstu vikuna í september 2008 voru það Ingólfur Arnarson og Kristín Jónsdóttir á Sauðárkróki sem buðu lesendum Feykis upp á gómsæta rétti. Þau völdu hráefnið úr sjónum að þessu sinni og eftirrétturinn var guðdómlegur.

 

  • Humar með eplarjómasósu.
  • 500 gr           skelflettur humar
  • 50   gr           smjör

 

Sósa

  • 2      stk         gul epli
  • 2      stk         skarlottlaukar
  • 1      dsl         hvítvín
  • 1 ½  dsl         rjómi
  • 1      tsk         dijon sinnep
  • ½  teningur  fiskikraftur
  • salt og pipar
  • sósujafnari

Sósan er löguð áður en humarinn er steiktur. Saxið laukinn og steikið hann glæran í olíu á pönnu(ekki brúna). Bætið hvítvíni og rjóma saman við og sjóðið við vægan hita í 5 mín., þykkið ögn með sósujafnara, bragðbætið með fiskikrafti, salti og pipar og sinnepi.

  • Afhýðið og kjarnhreinsið eplin, skerið þau smátt. Bræðið smjörið á pönnu og steikið humarinn ásamt eplunum í 1-2 mín. Hellið sósunni á pönnuna og látið hitna saman. Passið að það sjóði ekki svo að humarinn verði ekki seigur. Setjið á diska og skreytið með sítrónu og tómatstrimlum. Berið ristað brauð og stökkt salat fram með.

 

Skötuselur í kryddhjúp

  • 800  gr             skötuselur
  • 10  msk            maisenamjöl
  • 2    tsk             milt karrý
  • 2    tsk             paprika
  • 2    tsk             engifer
  • 4    tsk             púðursykur
  • 5-6 rif              saxaður hvítlaukur
  • 2    stk             egg
  • 4    msk           ólífuolía
  • 4    msk           sojaolía
  • 12  cl               pilsner (má nota vatn)

 

Hreinsið skötuselinn og skerið niður í ca 2cm bita. Þerrið fiskinn vel og veltið bitunum upp úr hveiti, setjið síðan í kryddhjúpinn og látið hjúpast vel. Fiskurinn er steiktur á pönnu í olíu í ca. 3 mín. á hvorri hlið eða þar til hann er orðinn gullinn. Passið bara að steikja hann ekki of lengi þá verður hann þurr. Kryddað með salti og nýmöluðum pipar. Það er einnig mjög gott að djúpsteikja hann.

 

Creme fraiche sósa með skötusel

  • 1 ds                sýrður rjómi 18%
  • 3 msk             súrar gúrkur     (smátt saxaðar)
  • 2 msk             púrrulaukur     (smátt saxaður)
  • 2 rif                hvítlaukur        (smátt saxaður)
  • 1 msk            sætt sinnep
  • 2 tsk               mable síróp
  • ¼ tsk               svartur pipar

 

Öllu hrært saman og látið standa í kæli í minnst klukkutíma. Gott að bera fram með stökku blaðsalati, hvítlauksbrauði og hrísgrjónum.  Ekki skemmir að hafa gott kælt hvítvín með  

 

Guðdómleg súkkulaði kaka

  • Þessi klikkar ekki
  • 2 dl sykur
  • 4 egg
  • 200 gr súkkulaði
  • 200 gr smjör
  • 1 dl hveiti

 

Krem

  • 200 gr súkkulaði
  • 70 gr smjör
  • 2 msk síróp
  •             Sykur og egg eru þeytt saman og súkkulaði og smjör brætt saman í potti eða í skál í örbylgjuofni.
  • Súkkulaðiblöndunni bætt úti eggjablönduna og síðan hveitinu bætt í.Sett í smurt eldfastmót og bakað í 30-35 mín við 180-200 C.
  • Kremið er einfaldlega brætt og smurt yfir kökuna volga. Borðað volgt með jarðaberjum og rjóma eða ís .
Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir