Hugleiðing um skóla- og vegamál :: Áskorandapenninn Leó Örn Þorleifsson - Hvammstanga
Við sem búum á Norðurlandi vestra þekkjum það vel að stór hluti grunnskólabarna á svæðinu þarf að ferðast um langan veg daglega með skólabílum til að sækja skóla í sínu sveitarfélagi. Oft á tíðum eru þessi ferðalög um óttalegar vegleysur sem er engum bjóðandi og þá allra síst ungum börnum. Til viðbótar löngum ferðatíma og slæmum vegum bætist svo íslenska veðráttan.
Þannig breytist veðrið jafnvel oft á dag og geta veður orðið válynd með skömmum fyrirvara. Við þessar aðstæður getur verið snúið að skipuleggja skólahald auk þess sem leggja þarf mat á hvort óhætt er að senda börn til skóla með skólabílum, hvort fella þurfi niður akstur á einstaka leiðum eða jafnvel þeim öllum. Á sama tíma getur jafnvel verið ágætis veður í þéttbýliskjörnunum, þar sem skólarnir eru staðsettir, sem kallar þá ekki á að skólahald sé fellt niður í heild þann daginn. En hvað er þá til ráða?
Annars vegar þurfa íbúar Norðurlands vestra ásamt sveitarstjórnum á svæðinu að taka höndum saman og þrýsta á stjórnvöld með öllum tiltækum ráðum að bæta ástand vega á svæðinu. Það hefur víða verið gert svo eftir hefur verið tekið. Í því samhengi langar mig sérstaklega að vekja athygli á nýlegu bréfi umboðsmanns barna til innviðaráðherra. Samkvæmt bréfinu telur umboðsmaður barna sérstaka ástæðu til að hvetja ráðherra til að bregðast við ófremdarástandi sem myndast hefur á Vatnsnesvegi í Húnaþingi vestra sem og hvetja ráðherra til að standa við fyrirheit um uppbyggingu öruggra og barnvænna samgönguinnviða um land allt. Þessu máli þarf að fylgja fast eftir. Bæta þarf samgönguinnviði á Norðurlandi vestra án frekari tafa.
Hins vegar þarf skólasamfélagið og sveitarstjórnir á svæðinu að huga betur að því hvernig megi tryggja aðgengi allra barna að námi þegar veður gerast válynd og ekki öll börn komast til skóla og langur ferðatími til skóla lengist jafnvel enn frekar. Við þessar aðstæður tel ég að tæknin geti hjálpað til. Háskólar, framhaldsskólar og fjölmargir vinnustaðir eru farnir að bjóða upp á fjarnám í rauntíma eða fjarvinnu sem hefur gefið góða raun. Af hverju ættu grunnskólarnir ekki líka að geta gert það?
Ég skora á Kristínu Árnadóttur, djákna að taka við pennanum.
Áður birst í 33. tbl. Feykis 2022
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.