Hrefna Sigríður Bjartmarsdóttir frá Mælifelli - Minning
Hrefna Sigríður Bjartmarsdóttir var fædd á Mælifelli 2. apríl 1958 og sleit þar barnsskónum. Hún lést 23. nóvember s.l. og fór útför hennar fram frá Neskirkju 11. desember.
Kynni okkar Hrefnu Sigríðar eða Siggu, eins og hún var oftast nefnd í fjölskyldunni, hófust á Nýja stúdentagarðinum veturinn 1980 - 1981, þar sem við bjuggum bæði og stunduðum nám, hún í þjóðfræði. Það fór ekki mikið fyrir Hrefnu þar á Garðinum, hún virkaði fremur hlédræg, en hafði góða nærveru. Við höfðum lítið saman að sælda, helst var að við rækjumst saman í eldhúsinu, er verið var að undirbúa kvöldmatinn. Fáum árum síðar leiddu örlögn mig norður í Skagafjörð á bernskuslóðir Hrefnu að Mælifelli, þar sem ég gerðist sóknarprestur.
Þar með upphófust kynnin á ný. Þau systkinin komu oft í heimsókn enda böndin sterk, er tengja þau við Mælifell, og hafa aldrei slitnað. Þá var gjarnan staldrað við, gengið um staðinn og rifjuð upp gömlu minnin á Mælifelli, hvernig húsakynnin voru og nærumhverfið á þeirra uppvaxtarárum og hvaða breytingar hafa átt sér stað síðan í áranna rás, fróðlegar og gefandi stundir, sem ég vil þakka.
Hrefna Sigríður var þjóðfræðingur að mennt. Hún fékkst við ýmis störf um dagana, kennslu og umönnunarstörf, en einnig við fræðastörf, var fræðimanneskja í eðli sínu og áhugasöm um allt gamalt og þjóðlegt svo sem þjóðsögur og þjóðtrú, enda lá það alltaf á hennar fræðasviði. Einnig var hún virk í ýmsum félagsstörfum og lét sér raunar fátt óviðkomandi. Ég var ekki kunnugur störfum Hrefnu, en mér býður í grun, að hún hafi verið góður starfskraftur, hvar sem hún lagði hönd á plóg.
Hrefna var búsett á Kjalarnesi síðari árin og bjó þar með manni sínum, Aðalsteini Jónssyni kerfisfræðingi og börnum þeirra, sem eru fjögur. Þar á Kjalarnesinu stóð hún fyrir stofnun Sögufélagsins Steina, sem lét byggja keltneskt útialtari á Esjubergi á Kjalarnesi árið 2021 til minningar um elstu kirkju á Íslandi, sem þar átti að hafa verið reist í kringum árið 900. Altari þetta er mikið listaverk í minningu keltneskrar kristni á Íslandi, en ekki síður fagurt minnismerki um menningar- og trúarlegan áhuga Hrefnu Sigríðar. Þar var ógleymanleg stund að vera viðstaddur brúðkaup þeirra Hrefnu og Aðalsteins þar við altarið 15. júní s.l. að viðstöddu fjölmenni. Veðrið var fagurt, brúðhjónin glæsileg og sömuleiðis veislan á eftir í Safnaðarheimili Lágafellssóknar, þar sem brúðurin sló á þjóðlega strengi.
Hrefna ritaði jafnan nafn sitt í gestabók Mælifellskirkju, er hana bar þar að garði, og blessunaróskir til kirkjunnar, sem nú fagnar hundrað ára afmæli á þessu ári. Henni þótti vænt um kirkjuna sína og bernskuheimili. Á sogarstund verða orðin oft svo vanmáttug. En til eru máttarorð, orð sem við þekkjum, sem veita styrk og von í sorg og söknuði, orðin hans, frelsarans Jesú Krists, sem sagði: Ég lifi og þér munuð lifa. (Jóh.14).
Með þeim orðum og þeirri trú vil ég kveðja Hrefnu Sigríði Bjartmarsdóttur með þakklátu hjarta fyrir viðkynningu alla og einstakt vinarþel í garð Mælifells. Eiginmanni, börnum þeirra, systkinum og öðrum aðstandendum sendi ég einlægar samúðarkveðjur. Veri hún Guði falin.
Ólafur Hallgrímsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.