Horft til framtíðar - Leiðari Feykis

Málmey á Skagafirði. Mynd: Fríða Eyjólfsdóttir.
Málmey á Skagafirði. Mynd: Fríða Eyjólfsdóttir.

Þá er það ljóst að Skagfirðingar eru sameinaðir í eitt sveitarfélag eftir kosningar helgarinnar og Húnvetningar til hálfs í Austursýslunni. Margir vilja meina að hér hafi verið stigið stórt framfaraskref fyrir viðkomandi samfélög íbúum öllum til heilla. Aðrir eru efins og óttast að þeirra hlutur muni skerðast í stærra sveitarfélagi.

Ég þykist skynja það hjá þeim sem voru á móti sameiningu, í minni sveitarfélögunum, að þeir óttist að verða afskiptir í stóru samfélagi sem eigi helst eftir að beina kröftum sínum að þéttbýlinu. Var meira að segja nefnt á íbúafundi í Héðinsminni að hætta væri á að Akrahreppur endi sem jaðarbyggð líkt og Árneshreppur. Það yrði ekki gott enda Blönduhlíðin ein fallegast hlíð í heimi.

Sumir hafa áhyggjur af upprekstrarmálum og fjallskilanefndum og sjá ekki hvernig miðlæg stjórn í þéttbýli hafi þá sýn á upprekstrarmál og afréttargirðingar sem nauðsynlegt er. Ég veit líka að sumir óttast fjarlægðina frá Blönduósi og fram í dali sem gæti hæglega orðið til þess að sjálfsögð þjónusta skerðist í sparnaðarskyni. Hvernig verður sorpmálum háttað? Hvað verður um skólann eða félagsheimilið?

Í aðdraganda kosninganna var það upplýst að í Sveitarfélaginu Skagafirði væru fleiri fulltrúar nefnda og stjórna úr dreifbýlinu heldur en af Króknum og bent á að ekki mætti rugla saman fólkinu sem í þeim sitja og staðnum þar sem stjórnsýslan er til húsa.

Nú reynir á nýjar sveitarstjórnir í vor að sýna fram á það að þær geti sinnt þessum málum af ábyrgð og festu og flestir í sveitarfélaginu séu a.m.k. þokkalega sáttir en einnig reynir á íbúa að taka ábyrgð og bjóða sig fram til starfa fyrir sveitarfélagið sitt. Til þess að hafa áhrif er vænlegasta leiðin að taka þátt í umræðunni á vitrænan hátt annað hvort með því að vera virkur í starfi sveitarfélaganna eða á þeim listum sem boðnir eru fram. Gott er að taka samtalið við fulltrúa listanna, segja frá og hlusta. Látum Facebook eiga sig ef við erum reið!

Það er eins með þann ágæta miðil og brennivínið sem getur breytt okkur í svín ef það er misnotað. Láttu ekki Feisbúkk breyta þér húmbúkk! (Úff, þessi er slakur!) Þá er maður búinn að tapa sannfæringunni og fólk hættir að taka mark á manni.

Réttið upp hönd sem kannast við þetta!

Góðar stundir!
Páll Friðriksson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir