Hörður Axel skaut Stólana niður í villta norðwestrinu
Lið Tindastóls og Keflavíkur mættust í Síkinu í gær í öðrum leik liðanna í átta liðum úrslitum Dominos-deildarinnar. Suðurnesjapiltarnir unnu fyrsta leikinn með átta stiga mun. Líkt og þá sýndu Tindastólsmenn seiglu í gærkvöldi, komu sterkir til leiks í síðari hálfleik og það var allt jafnt þegar aðeins fjórar mínútur voru eftir af leiknum. Þá reyndust gæði gestanna Stólunum ofviða og sérstaklega gekk illa að hemja Hörð Axel að þessu sinni. Lokatölur 74-86 og Keflvíkingar komnir með Stólana í skrúfstykki.
Deane Williams og Hörður Axel rykktu sigurvagni gestanna í gang í fyrsta leikhluta og voru nánast strax þotnir út í buskann með Tindastólsmenn lamaða í spólreyknum. Þeir komust í 8-19 sem var að sjálfsögðu ekki byrjunin sem Baldur Þór og hans gengi hafði stefnt að. Um miðjan annan leikhluta var forystan orðin 15 stig, 18-33, en þá náðu heimamenn loks að lyfta pistólunum úr slíðrunum og hófu að skjóta frá sér. Stólarnir minnkuðu muninn í sjö stig, 30-37, en Williams kláraði hálfleikinn fyrir gestina með mórölskum körfum; einni troðslu og svo hollí-hú um leið og leiktíminn rann út. Staðan 30-41 í hálfleik.
Nú var ljóst að Tindastólsmenn urðu að vanda til verka í síðari hálfleik. Hörður Axel og Valur Króksari Valsson höfðu aðrar hugmyndir og settu báðir þrjú stig á töfluna fyrir gestina og munurinn orðinn 17 stig. Nú virtist bara vanta að útfararstjórinn mætti á svæðið með tommustokkinn á lofti líkt og í westrinu forðum. Heimamenn lágu í rykugri götunni en [klósöpp] nú rifaði í augun á þeim og þeir risu vankaðir á fætur og hristu síðan af sér áfallið. Næstu sex stig voru heimamanna og smátt og smátt söxuðu þeir á forskotið, ekki síst fyrir tilstilli Antanas Udras sem gekk berserksgang á þessum kafla og sallaði ellefu stigum niður í körfu Keflvíkinga. Áður en þriðja leikhluta lauk var allt orðið hnífjafnt – staðan 59-59.
Uppiskroppa með skotfæri og púður
Viðar setti niður þrist með haglara úr horninu í upphafi fjórða leikhluta og kom liði Tindastóls yfir. Williams og Hörður Axel svöruðu að bragði og næstu mínútur var skotbardagi þar sem bæði lið bitu frá sér. Þegar fjórar mínútur voru eftir var enn jafnt, 70-70, en þá urðu Stólarnir uppiskroppa með skotfæri og púður og Keflvíkingar létu þrumufleygum rigna yfir heimamenn sem áttu nú engin svör og flúðu til fjalla á átta hófahreinum.
Nú þurfa Tindastólsmenn að sleikja sárin og koma tvíefldir til leiks í Sláturhúsinu suður með sjó næstkomandi laugardag. Keflvíkingar hafa verið yfirburðalið í vetur og sennilega fáir sem hafa haft trú á að Tindastóll gæti gert þeim skráveifu. Það verður því að gefa strákunum kredit fyrir að hafa gefið Keflvíkingum tvo hörkuleiki sem hafa í raun verið spennandi fram á lokamínútur. Gæði deildarmeistaranna hafa hins vegar skinið í gegn á lokamínútum leikjanna.
Rétt eins og í fyrsta leiknum var möguleiki í stöðunni fyrir Stólana því aldrei þessu vant gekk hvorki né rak hjá svindlkallinum Milka í liði gestanna. Pétur okkar Birgis náði reyndar að matsa Milkann og kannski rúmlega það – sleppti því alveg að skora í leiknum en gerir þá bara betur næst. Flenard gerði 19 stig fyrir Tindastól og tók 10 fráköst, Brodnik skilaði 17 stigum á töfluna og Tomsick 14 en hann átti ellefu stoðsendingar í leiknum, líkt og Keflvíkingurinn Hörður Axel sem var að auki með 29 stig og þar af sjö þrista í tólf tilraunum. Tvímælalaust maður leiksins. Williams skilaði 26 stigum en Milka var með tíu.
Ágæt stemning var í Síkinu og Grettismenn gáfu sig alla í stuðninginn. Það vakti hins vegar athygli að mætingin í Síkið var ekki mikil, rétt um 100 manns en leyfi var fyrir 300 áhorfendum. Ingó formaður sagðist í spjalli við Feyki hafa viljað sjá fleiri áhorfendur en reiknaði með því að helsta ástæðan fyrir dræmri aðsókn liggi einkum í því að eftir samfélagslokun vegna Covid í síðustu viku sé fólk í Skagafirði enn að passa sig og sína.
Næsti leikur liðanna er í Keflavík á laugardaginn. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.