Holtavörðuheiðin opin á ný eftir lokun vegna vatnavaxta

Skjáskot af umferðarkorti Vegagerðarinnar frá því kl. 10 í morgun. Örfáum andartökum síðar var búið að opna Holtavörðuheiðina. VEGAGERÐIN
Skjáskot af umferðarkorti Vegagerðarinnar frá því kl. 10 í morgun. Örfáum andartökum síðar var búið að opna Holtavörðuheiðina. VEGAGERÐIN

Töluvert vatnsveður og ekki hvað síst hlýindi hafa haft áhrif á færð nú síðasta sólarhringinn. Þannig má merkja á umferðarkorti Vegagerðarinnar að loka þurfti Holtavörðuheiðinni í nótt þar sem ræsi stíflaðist og bjarga þurfti ferðalöngum eftir að bílar þeirra fóru á kaf við Kattarhrygg. Þá er Vatnsnesvegur að vestanverðu ófær þar sem mikið efni hefur runnið úr veginum. Aðrir vegir eru nú færir og var Holtavörðuheiði opnuð fyrir umferð rétt í þessu.

Samlvæmt frétt á mbl.is var mikið vatn á veginum við Kattarhrygg á leið upp á Holtavörðuheiðina sunnanverða. Ef marka má mynd sem fylgir fréttinni hafa bílarnir borist út fyrir veg og voru komnir á kaf þegar björgunarsveitarmenn bar að garði. Komst fólkið upp á þak bíla sinna þar sem það beið aðstoðar.

Björgunarsveitarmaður reyndi að komast að bílunum en varð að synda með línu þar sem hann botnaði ekki utan vegar í flóðinu. Tókst björgunin giftusamlega og um hálf sex í morgun voru ferðalangarnir komnir í sjúkrabíl til aðhlynningar.

Áfram er spáð hlýindum fram á morgundaginn og töluverðum sunnanvindi. Þannig skellir Veðurstofan á gulri veðurviðvörun á Norðurland vestra og Strandir frá því um kvöldmatarleytið í dag og fram undir morgun. Það lægri síðan og kólnar og má reikna með snjókomu um hádegi, síðan styttir upp og veður styllt en nokkuð kalt hér á Norðurlandi vestra fram yfir helgi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir