Hólahátíð var haldin um liðna helgi
Hólahátíðarveðrið, sem ævinlega hefur verið glampandi sól og steikjandi hiti, var ekki einkenni hátíðarinnar að þessu sinni. Til stóð að ganga pílagrímagöngu yfir Heljardalsheiði en aflýsa þurfti henni vegna veðurs. Aftur á móti var gengið í Gvendarskálina í Hólabyrðinni ofan við Hóla undir leiðsögn sr. Þorgríms Daníelssonar sóknarprests í Þingeyjarprestakalli á laugardeginum og tekið var á móti pílagrímunum með helgistund í Hóladómkirkju.
Dagskrá sunnudagsins 18. ágúst hófst á orgeltónleikum hjónanna dr. Vidas Pinkevicius og dr. Ausra Motuzaite- Pinkeviciene, en þau eru alþjóðlegir konsertmeistarar og kennarar við Háskólann í Vilníus í Litháen. Þá var Hátíðarmessa þar sem frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, flutti sína síðustu prédikun í embætti biskups í Hólastifti. Kirkjukór Hóladómkirkju og Skagfirski Kammerkórinn sungu við undirleik Jóhanns Bjarnasonar organista kirkjunnar.
Milli athafna var veislukaffi að hætti Kaffi Hólar og að því loknu var haldið til hátíðarsamkomu í kirkjunni þar sem sr. Guðrún Karls Helgudóttir flutti ávarp og hápunkturinn, sjálf Hólaræðan, sem að þessu sinni var flutt af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar.
Áslaug Arna fór víða í ræðu sinni sem var ansi hreint mögnuð eins og konan sjálf. Hún talaði um mikilvægi þess að tryggja Hólastað þá virðingu og viðhald sem staðurinn ætti skilið, hvað háskólastarf í dreifðum byggðum landsins hefði mikil efnahagsleg og menningarleg áhrif og vék síðan máli sínu að mikilvægi kirkjunnar í íslensku samfélagi, að boðskapur kirkjunnar eigi fullt erindi við landsmenn nú eins og áður. Þá minnist Áslaug á að enginn hafi orðið verri af því að tileinka sér meiri náungakærleika, hjálpsemi og fyrirgefningu eða gullnu regluna.
Tónlistin var í höndum hjónanna Berglindar Stefánsdóttur, sem lék á þverflaustu, og Sigurgeirs Agnarssonar sellóleikara og gaf athöfninni einstakt yfirbragð.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.