Hólahátíð 2010
Árleg Hólahátíð á Hólum í Hjaltadal verður haldin 13. – 15. ágúst næstkomandi. Að þessu sinni er hátíðin helguð ungu fólki og er yfirskrift hennar ,,Unga kirkjan”. Hátíðin er skipulögð í samstarfi vígslubiskupsins á Hólum, ÆSKEY og ÆSKÞ.
Hátíðin hefst í Auðunarstofu föstudagskvöldið 13. ágúst kl. 20:30 með málþingi undir yfirskriftinni ,,Unga fólkið og kirkjan“ – þar sem sr. Þorgeir Arason og Anna Dúa Kristjánsdóttir flytja ávörp og sitja fyrir svörum. Á dagskrá unga fólksins á laugardeginum eru meðal annars í boði ratleikur, göngur, hlaup, grillveisla, fáránleikar á íþróttavellinum og kvöldvaka við varðeld.
Á Hólahátíð 2010 gefst gott tækifæri fyrir alla til að hreyfa sig og kynnast um leið gömlum þjóðleiðum, sem pílagrímar fóru á leið sinni heim að Hólum, taka þátt í helgihaldi og fá fylgd góðra leiðsögumanna og fararstjóra.
Þrjár göngur og eitt hlaup eru í boði laugardaginn 14. ágúst. Tvær lengri leiðir með 8-9 klukkustunda göngu um Heljardalsheiði og frá Flugumýri að Hvammi í Hjaltadal og ein styttri helgiganga í Gvendarskál þar sem vígslubiskup messar.
Gvendarskál
Lagt af stað kl. 12:30 frá anddyri Hólaskóla og gengið í Gvendarskál þar sem vígslubiskup syngur pílagrímamessu við altari Guðmundar góða og sr. Gunnar Jóhannesson flytur hugvekju.
Klukkan 13:30 stendur Ungmennafélagið á staðnum fyrir hlaupi frá Hólastað í Gvendarskál. Þar sameinast göngu- og hlaupahópar í helgihaldi við altari Guðmundar góða.
Heljardalsheiði
Gengin verður gömul þjóðleið úr Svarfaðardal yfir Heljardalsheiði. Lagt verður upp frá Atlastöðum í Svarfaðardal kl. 9.30 laugardaginn 14. ágúst en sætaferð verður þangað frá Hólum kl. 7 fyrir þau sem það kjósa. Reiknað er með átta stunda rólegri göngu. Farartálmar eru ekki á leiðinni en fólk verður aðstoðað yfir Kolbeinsdalsá og til Hóla. Nauðsynlegt er þó að vera vel útbúinn og vel skóaður. Fararstjórar yfir Helju verða sr. Guðrún Eggertsdóttir og Hjalti Þórðarson, landfræðingur.
Flugumýri – Hvammur í Hjaltadal
Mæting er við Flugumýrarkirkju kl. 7:30 og kirkjan skoðuð. Gengið upp með Hvammsgili sunnanverðu upp fyrir foss efst í gljúfrinu. Þar er farið yfir ána og síðan sem leið liggur upp í Ranghala sem er þröng skora á milli dala. Þetta er erfiðasti hluti leiðarinnar og tekur hann að lágmarki tvær klukkustundir. Síðan er gengið eftir Ranghala og svo áfram eftir endilöngum Austurdal. Það er dálítið á fótinn en tiltölulega auðveldur kafli og lengi vel er gengið eftir þokkalegum fjárgötum. Áætlaður göngutími þessa hluta er u.þ.b. 2 tímar. Þá kemur brattur en ekki langur kafli upp á fjallið milli Austurdals og Hvammsdals í ríflega 1000 metra hæð sem tekur að lágmarki 1 klst. í viðbót. Síðasti kafli leiðarinnar er svo niður Hvammsdal sem er mjög grýttur framan til að Hvammi í Hjaltadal, þangað sem hópurinn verður sóttur á bíl. Þetta telst erfið ganga og áætlaður heildargöngutími er um 9 klukkustundir. Leiðsögumaður er Þórarinn Magnússon, bóndi á Frostastöðum.
Þátttaka í lengri göngurnar tilkynnist til malfridur@holar.is
Að loknum göngum verður tekið á móti pílagrímum í Hóladómkirkju með kvöldsöng kl. 18. Um kvöldið verður síðan grillveisla.
Á laugardeginum kl. 16:00 opnar mennta- og menningarmálaráðherra Sögusetur íslenska hestsins og vígslubiskup blessar setrið.
Dagskrá sunnudagsins hefst með morgunsöng í Hóladómkirkju kl. 9 og síðan verður dagskrá í Auðunarstofu kl. 11:00 þar sem Benedikt Gunnarsson listmálari flytur ávarp og afhendir málverk að gjöf og Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra flytur ávarp tengt prentminjum á Hólum.
Hátíðarmessa verður síðan í Hóladómkirkju kl. 14. Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni, prédikar, sr. Bolli Pétur Bollason og sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir þjóna fyrir altari. Sr. Jón Aðalsteinn Baldvinsson, vígslubiskup, lýsir blessun. Ungmenni lesa ritningarlestra. Félagar úr kammerkórnum Ísold syngja undir stjórn organistans Eyþórs Inga Jónssonar.
Hátíðinni lýkur síðan með Hátíðarsamkomu í Dómkirkjunni kl. 16.30. Hólaræðuna flytur Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Skáld Hólahátíðar er Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson. Tónlist annast Eyþór Ingi Jónsson, orgel, Lára Sóley Jóhannsdóttir, fiðla og Hjalti Jónsson söngur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.