Höfðingleg gjöf á sjúkrahúsið til minningar um móður skáldsins

Við afhendingu gjafabréfsins. Aftari röð f.v. Bryndís Lilja Hallsdóttir mannauðsstjóri, Ragna Jóhannsdóttir, Guðbjörg Árnadóttir deildarstjóri, Þorsteinn Þorsteinsson yfirlæknir, Kristrún Snjólfsdóttir og Sigurdríf Jónatansdóttir. Neðri röð: Helga Haraldsdóttir, Gíslína Helgadóttir, Engilráð M. Sigurðardóttir, Steinunn Hjartardóttir og Jóna B. Heiðdal. Hægra megin má líta tækin sem fólst í gjöf Hannesar til sjúkrahússins. Mynd: PF.
Við afhendingu gjafabréfsins. Aftari röð f.v. Bryndís Lilja Hallsdóttir mannauðsstjóri, Ragna Jóhannsdóttir, Guðbjörg Árnadóttir deildarstjóri, Þorsteinn Þorsteinsson yfirlæknir, Kristrún Snjólfsdóttir og Sigurdríf Jónatansdóttir. Neðri röð: Helga Haraldsdóttir, Gíslína Helgadóttir, Engilráð M. Sigurðardóttir, Steinunn Hjartardóttir og Jóna B. Heiðdal. Hægra megin má líta tækin sem fólst í gjöf Hannesar til sjúkrahússins. Mynd: PF.

Á dögunum mættu galvaskar konur úr Kvenfélagi Sauðárkróks á heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki til þess að afhenda formlega gjöf til minningar um Sigríði Sigtryggsdóttur, móður Hannesar Péturssonar, skálds.

Sigurdríf Jónatansdóttir, fráfarandi formaður félagsins, afhenti Kristrúnu Snjólfsdóttur, yfirhjúkrunarfræðingi, gjafarbréf sem staðfesti gjöfina og sagði aðdraganda vera á þá leið að Hannes hefði haft samband við hana og viljað minnast móður sinnar með smá gjöf til Kvenfélagsins, ef þar væri sjóður sem sjúkrahúsið gæti nýtt.

Sigurdríf sagði að það væri vel hugsanlegt og úr varð að Hannes bað um reikningsupplýsingar þar sem hann ætlaði að leggja inn smá upphæð. Sigurdríf segir að þessi upphæð hafi svo reynst vera mun hærri en „smá“ þar sem ein milljón króna kom inn á reikninginn. Lýsti hún því svo hvernig stjórnin hefði fengið sjokk þegar þetta rann upp fyrir henni. Í kjölfarið var haft samband við stjórnendur sjúkrahússins og ákveðið að þar á bæ yrði fundið út í hvað fjármunirnir væru best nýttir.

„Þetta var í fyrsta lagi sólarhrings blóðþrýstingsmælir, sem tilheyrir heilsugæslunni, og það sem því fylgir, og er mikið notað,“ sagði Kristrún þegar hún veitti gjafarbréfinu viðtöku.

„Svo aftur á móti var einnig keyptur lífsmarkamælir á sjúkradeild, sem mælir blóðþrýsting, hita og mettun og svo skanni sem flýtir fyrir skráningu í sjúkraskrárkerfið,“ útskýrði Kristrún og sagði skannann, sem notaður er til að nema strikamerki á armböndum sjúklinga, spara mikinn tíma við skráningar og auka öryggi. Þakkaði hún höfðinglega gjöf og sagði öll tækin eiga eftir að nýtast mjög vel í framtíðinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir