Hlýtt en hvasst á Hlíðarkaupsmótinu um helgina
Opna Hlíðarkaupsmótið fór fram síðastliðinn laugardag í hlýjum en hressilegum vindi. Frábær þátttaka var á mótinu og komust færri að en vildu. Mótið átti að byrja á slaginu 10 en þá var vindurinn svo mikill að ákveðið var að fresta mótinu til kl. 12:30 og var þá ekkert annað í stöðunni en að byrja leika. Spilað var hefðbundið punktamót með forgjöf og var hámarksforgjöf karla 24 og kvenna 28.
Hlíðarkaup, styrktaraðili mótsins bauð þátttakendum upp á kaffiveitingar að loknum leik. Veitt voru verðlaun fyrir efstu fimm sætin og var Brynjar Morgan Brynjarsson efstur með 41 punkt, í öðru sæti var Dagbjört Sísí Einarsdóttir með 39 punkta, í þriðja sæti var Dagný Finnsdóttir með 35 punkta, í fjórða sæti Konráð Sigurðsson með 34 punkta og í því fimmta var Atli Freyr Rafnsson einnig með 34 punkta. Nándarverðlaun voru veitt á 3./12. og þar var Halldóra Andrésdóttir Cuyler næst holu en á 6./15. var það Ármann Viðar Sigurðsson sem sló besta upphafshöggið. Golfklúbbur Skagafjarðar þakkar Hlíðarkaup og þátttakendum fyrir daginn.
Næstu helgi, laugardaginn 20. júlí, verður Húnavökumótið á Vatnahverfisvelli við Blönduós og er þetta punktakeppni með forgjöf, einn flokkur. Hámarksleikforgjöfin í bæði karla- og kvennaflokki er 36 og kostar 4000 kr. Nú er um að gera að skrá sig því skráningu lokar kl. 19 á föstudaginn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.