Hlutafé aukið um 55 milljónir í Gagnaveitunni

Frá ljósleiðaraframkvæmdum í fyrrasumar. Mynd, Gagnaveita Skagafjarðar

Á fundi Byggðarráðs Skagafjarðar í gær var lagt fram hluthafasamkomulag milli Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Skagafjarðarveitna ehf og Kaupfélags Skagfirðinga annars vegar og Gagnaveitu Skagafjarðar hins vegar. Um er að ræða aukningu á hlutafé í fyrirtækinu á árinu 2009 um 55 milljónir króna.

 
Jarðvinnuframkvæmdum á vegum Gagnaveitunnar í Hlíðahverfi lauk í janúar og nú er verið að undirbúa ídrátt og teningar ljósleiðara í hverfinu. Þegar því lýkur verða Hlíðahverfi, Túnahverfi og blokkirnar við Víðigrund orðin tengd ljósleiðarakerfi Gagnaveitunnar.
 
Fjölnet ehf hefur þegar kynnt þjónustu sína á kerfinu og von er á starfsmönnum Vodafone norður fljótlega til að kynna þjónustu þá sem fyrirtækið hyggst veita á kerfi Gagnaveitu Skagafjarðar.
 
Gagnaveitan vinnur einnig að uppbyggingu á háhraðaneti í dreifbýli og nú þegar eru nokkrir bæir orðnir tengdir háhraða-interneti sem Fjölnet selur yfir kerfi Gagnaveitunnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir