Heyr himna smiður – 50 ár frá lagasmíði
Víða leynast handskrifuð bréf hugsaði ég þegar ég horfið á fréttirnar um daginn, en þar var sagt frá óþekktu bréfi Davíðs Stefánssonar sem nú var að koma fram fyrir augu almennings. Þá mundi ég eftir að ég átti bréf frá Þorkeli Sigurbjörnssyni, er hann svarað erindi mínu um hvernig lag hans, Heyr himna smiður varð til.
Forsagan er að ég var í Menningar- og framfarafélagi kvenna í Skagafirði og eitt verkefnið sem okkur var úthlutað var að kynna laga- og eða textahöfund og það var aðeins þetta eina lag sem ég vildi taka fyrir í mínu verkefni.
Ég hafði fengið að gjöf geisladiskinn Sálmar lífsins með þeim Sigurði Flosasyni og Gunnari Gunnarsyni, þar sem útsetning þeirra á lagi Þorkels með kirkjuorgeli og saxafóni tekst snilldarlega.
Þorkell Sigurbjörnsson, mynd af netinu
Ég sendi Þorkeli bréf (bjóst ekki við að fá svar) og bað hann að segja mér frá því hvernig lagið varð til. Kolbeinn Tumason orti sálminn árið 1208, en það er eins og þeir félagar hafi setið hlið við hlið og ráðfært sig hvor við annan um þetta mikla tónverk.
En ég fékk svar um hæl og það handskrifað, því að prentarinn hans Þorkels var bleklaus og svarbréf hans var svona:
8. maí 2001
Ágæta Sigrún Alda
Þú gafst ekki upp neitt nákvæmt heimilisfang – en ég treysti því að þú eigir ekki margar alnöfnur í bænum svo að þessar línur komist til skila. (Prentarinn var bleklaus í dag og ég vona að þú getir lesið hrafnasparkið.)
Þegar ég var unglingur í Gagnfræðaskóla Austurbæjar að læra undir landspróf, þá var íslenskukennarinn Guðrún Helgadóttir (síðar skólastýra Kvennaskólans) dásamlegur og strangur kennari. (Þá voru þéringar við lýði).
Hún lét okkur læra og leggja á minnið óteljandi ljóð og tilvitnanir úr íslenskri tónmenntasögu og þ.á.m. þennan fyrsta sálm, sem við vitum að Íslendingur reyndi að yrkja á móðurmálinu. Svo líða árin og „unglingagraftarbólur hverfa“.
Vorið 1972 var ég í nefnd með gamla kennaranum mínum úr Tónlistarsk. í Rvík. Honum var tíðrætt um þennan sálm Kolbeins Tumasonar. Það var orðið seinfært heim eftir þennan fund – upp Öskjuhlíðina – bílar að renna og spóla o.s.frv. Þá varð lagið til í mínum huga, (seinasta hendingin fyrst). Þegar ég komst svo heim í Kópavog, var ekkert annað eftir en að hripa þessar nótur á blað.
Nokkrum dögum seinna sýndi ég dr. Róbert þessar nótur. Hann varð svo glaður, að hann hreinritaði með sinni listaskrift lagið og sendi til organista og söngstjóra. Blessuð sé minning hans.
Textinn er aðalatriðið. Með fullri virðingu fyrir þeim Sigurði og Gunnari, sem báðir voru fyrrverandi nemendur mínir til Tónlistask. í Rvík. – þá finnst mér að þú ættir að spila fyrir Framfarafélagið frumgerð lagsins t.d. með Hamrahlíðar, Langholts, eða Mótettukórunum.
Bestur óskir og kveðjur, Þorkell Sigurbjörnsson
Hér fyrir neðan má svo heyra Mótettukór Hallgrímskirkju flytja lag Þorkels við sálm Kolbeins Tumasonar Heyr himnasmiður.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.