Héraðsbókasafn Skagfirðinga heldur upp á 120 ára afmælið

„Já, góð er hún blessunin.“ Það er kaka í dag. MYND: KSE
„Já, góð er hún blessunin.“ Það er kaka í dag. MYND: KSE

Héraðsbókasafn Skagfirðinga er 120 ára í ár en það var stofnað í kjölfar sýslufundar árið 1904. Síðustu tvo daga hefur verið haldið upp á tímamótin með kökuveislu á afgreiðslustöðvum safnsins; fyrst í Varmahlíðarskóla á þriðjudaginn og á Hofsósi í gær. Það verður svo hægt að gæða sér á köku í dag í höfuðstöðvum safnsins í Safnahúsinu við Faxatorg á Sauðárkróki.

Safnið er opið frá kl. 11-18 í dag og kannski vissara að mæta fyrr en síðar – það yrði að sjálfsögðu skúffelsi ef bakkelsið væri búið.

Það er rétt að minna á að á Héraðsbókasafninu er, auk feykilega frábærs starfsfólks, gott úrval bóka fyrir alla aldurshópa og mismunandi áhugasvið, tímarit og dagblöð, hljóðbækur og DVD-diskar, púsl og borðspil í notalegu umhverfi fyrir samveru, spjall, tölvuvinnu eða slökun.

Svo er kaffi á könnunni eða eins og Guðrún frá Lundi ritaði eitt sinn: „Kaffið þætti mér gott, ekki síst ef það væri eitthvað út í það.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir