Helvítis illgresið! | Leiðari 28. tölublaðs Feykis

Mynd úr garðinum.
Mynd úr garðinum.

Þegar veður er gott þá langar mig ekkert meira en að fara upp í bústað og beint í drullugallann. Það tekur mig nefnilega ekki nema 15 mínútur að keyra þangað en dagarnir til að sýsla í þessu hafa ekki verið margir í ár og garðurinn því eftir því – allur út í illgresi.

Mikil órækt var í garðinum og í kringum búastaðinn þegar við keyptum hann fyrir tveimur árum og því nokkuð ljóst að mikil vinna væri fram undan í honum. Þá sagði mamma að þetta væri svona fimm ára verkefni. Lítið gerðist fyrsta sumarið því við fengum hann afhentan í byrjun september en ég náði að vinna mikið í honum í fyrra. En í ár finnst mér ekkert hafa gerst nema að ég hef ekki undan við að slá því sprettan er svo góð.

Áður en fjárfest var í þessum herlegheitum þá voru puttarnir mínir alls ekki grænir og ég hafði engan áhuga á þessu, skildi ekki hvernig mamma nennti að standa í þessu allt sumarið alla þá daga sem færi gafst. Í hvert skipti sem við fórum til Akureyrar eða Reykjavíkur þá þurfti alltaf að koma við í þessum blómagarðbúðum sem mér fannst hreinlega vera waste of time eða algjör tímaeyðsla. En í dag skil ég hana og hleyp á milli til að skoða hvort ég sjái eitthvað skemmtilegt til að setja í garðinn, hvort sem það eru blóm eða styttur. Fyndið hvernig þetta breytist þegar maður eignast sinn eigin garð og langar að gera hann fínan. Að vísu get ég nú ekki sagt að ég sé komin með græna fingur þegar ég þekki valla muninn á illgresi og öðrum plöntum.

Í garðinum eru nefnilega nokkrar plöntur sem eru að gera mig vitlausa; fífill, valmúi, njóli, haugarfi, elfting og eitthvað sem ég veit ekki hvað heitir. Ríf upp með rótum það sem ég get en ég má ekki snúa mér við þá er þetta komið upp aftur!  En einhver vitur með mjög græna fingur sagði að það væri löng vegferð að losna við þennan fjanda. Ég hef samt mikla trú á því að mér takist þetta einn daginn þar sem ég er með mikla þolinmæði. Er þá ekki gott að vera bjartsýnismanneskja líka!

Mér fannst Rabarbarahátíðin, sem fram fór nýlega á Blönduósi, svo sniðug því það er hægt að gera heilmargt úr honum ef hann er ekki nýttur í sultu. Væri ekki tilvalið að Skagafjörður setji upp hátíð til að fagna illgresinu og öllu því sem hægt er að gera úr því, því það er svo margt. Hvað finnst ykkur?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir