Hélt upp á sextugs afmælið á Elland Road í íslenskum norðanbyl - Liðið mitt Hólmgeir Einarsson, sjávardýrasali - Leeds
Hólmgeir Einarsson þekkja margir og tengja við Fiskbúð Hólmgeirs í Mjóddinni í Reykjavíkinni og titlar sig sjávardýrasala. Hann er fæddur og uppalinn á Hofsósi, vann þar mest við fisk, fiskverkun og var lengi til sjós ásamt því að hafa verið verkstjóri hjá Hraðfrystihúsinu á Hofsósi. Þá lá leiðin suður fyrir rúmum 34 árum síðan og þar er hann enn. Guðmundur Sigurbjörnsson, sveitungi hans frá Hofsósi, skoraði á hann að svara spurningum í Liðinu mínu hér í Feyki.
Hvert er uppáhalds liðið þitt í enska boltanum og af hverju? -Ég er mikill Leeds-ari. Það var árið 1968 þegar ég kom í heimsókn til systur pabba, hennar Öldu, í Keflavík. Þar sátu synir hennar inni í stofu að horfa á vikugamlan leik sem Bjarni Fel var að lýsa af sinni alkunnu snilld. Þá sagði Halli í Enni við mig: „Hólmgeir, þú átt að halda með þessum í hvítu búningunum.“ – Síðan þá hef ég alltaf haldið með Leeds, þökk sé Halla.
Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu? -Við verðum þakklátir fyrir það að halda okkur uppi. Byggjum svo ofan á því fyrir næstu tímabil.
Ertu sáttur við stöðu liðsins í dag? -Nei, eiginlega ekki. Væri til í að sjá liðið spila betur en það hefur gert en mikil meiðsli hafa verið í herbúðum Leeds-ara á þessu tímabili. Hjarta liðsins, Kalvin Philips og Patrick Bamford, hafa verið mjög mikið frá og er það mjög erfitt fyrir lið eins og Leeds.
Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði? -Menn voru nú svolítið að láta mig heyra það þegar við vorum í B og C-deildum hérna áður fyrr.
Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar? -Gordon Strachan kemur fljótt upp í hugann ásamt Tony Yeboah. Síðan var ástralska tvíeykið, Harry Kewell og Mark Viduka ákaflega skemmtilegir.
Hefur þú farið á leik með liðinu þínu? -Já, ég hélt upp á sextugs afmælið mitt á Elland Road í íslenskum norðanbyl.
Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? -Já, ég á fullt af dóti sem tengist liðinu, allt frá gömlum og nýjum treyjum yfir í rauðvínsflösku og trefil.
Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið? -Mér gekk brösuglega til að byrja með en ég náði að koma yngsta meðlimnum yfir á mitt band og er hann þar ennþá.
Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag? -Aldrei, og sé það ekki gerast úr þessu.
Uppáhalds málsháttur? -Margt smátt gerir eitt stórt.
Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir? -Nei, ekki svona í fljótu bragði.
Spurning frá Guðmundi Sigurbjörnssyni: -Verður Bielsa að læra ensku til að ná einhverju almennilegu út úr þessum ágætis leikmönnum svo þeir spili ekki í næstefstu deild á næsta tímabili?
Svar: -Mín kenning er sú að hann kann alveg ensku en vill ekki tala hana. Hann kemur sínum skilaboðum áleiðis og það er nóg fyrir okkur stuðningsmennina!
Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum? -Ég skora á góðvin minn, Hrafn Margeirsson frá Mælifellsá.
Spurning frá Hólmgeiri: -Hvort heldur þú að Nott. Forest verði í B eða C deild á næsta tímabili?
Áður birst í 9. tbl. Feykis 2022
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.