HEITASTA GJÖFIN - „Kaffiboð af bestu gerð og pottþétt boðið upp á sígó líka“
Steindór Árnason trillukall er fæddur á Króknum og átti heima á Reykjum á Reykjaströnd fyrstu æviárin. Steindór býr núna í gamla læknishúsinu í Skógargötunni á Króknum ásamt henni Jónu sinni. Steindór var til í að rifja upp fermingardaginn.
Hvar og hvenær fermdist þú? Fermdist í Sauðárkrókskirkju árið1975. Og klerkurinn hét Tómas Sveinsson ef ég man rétt.
Manstu eftir fermingunni sjálfri og fermingarfræðslunni? Minningarnar frá deginum og fermingarfræðslunni eru nú aðeins farnar að rykfalla, en finnst eins og það hafi ekki verið mjög mikill spenningur fyrir að mæta í þetta en það þurfti samt að gera. Held ég hafi lært þarna trúarjátninguna t.d. og kann enn, undarlegt en satt.
Hvernig var fermingardressið og hárgreiðslan? Fermingardessið var að sjálfsögðu í takt við tískustrauma þess tíma. Múnderingin var fjólublár fínn flauelsjakki, ljósar buxur, hvít skyrta með einhvers konar rauðum doppum og þykkbotna, marglitir skór með háum hæl, já og svo risastór þverslaufa. Hárgreiðslan var önnur en ég nota í dag.
Hvar var fermingarveislan haldin? Veislan var heima.
Hvað bauðstu upp á í fermingarveislunni? Kaffiboð af bestu gerð og pottþétt boðið upp á sígó líka.
Hver var heitasta gjöfin á þeim tíma? Mikið af gjöfum, hljómtækjasamstæða, hellingur af pening og fleira.
Hvað stóð upp úr á fermingardaginn sjálfan? Mér finnst ekki ólíklegt að mesti spenningur dagsins hafi verið fyrir gjöfunum, en viðurkenni það samt alls ekki.
Ef þú ættir að fermast í dag, hvernig dress yrði fyrir valinu og hver væri óskagjöfin? Ef ég væri að fara að fermast núna þá myndi ég klæða mig öðruvísi, samt ekki viss hvernig. Svo væri líklega lágmarkskrafa að fara fram á Iphone síma eða álíka.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.