Heimabakað brauð
Heimabakað brauð er ekki bara gott heldur er það líka ódýrt. Hér koma nokkrar góðar brauðuppskriftir
Gulrótabrauð
300 g gulrætur
2 msk perluger
500 ml ylvolgt vatn
2 msk hunang
3 msk ólífuolía
2-3 tsk salt
50 g heslihnetuflögur (má sleppa)
8-900 g hveiti, helst brauðhveiti
Gulræturnar skafnar eða afhýddar og rifnar fremur gróft. Gerið leyst upp í
volgu vatninu ásamt 1 tsk af hunanginu. Þegar það freyðir er afganginum af
hunanginu hrært saman við ásamt olíu, salti, hnetum og helmingnum af
hveitinu. Rifnu gulrótunum hrært saman við og síðan meira hveiti smátt og
smátt, þar til deigið er hnoðunarhæft og klessist ekki við hendurnar að ráði
en er þó fremur lint. Hnoðað mjög vel. Sett í hveitistráða skál, viskastykki
eða plast breitt yfir og látið lyfta sér í a.m.k. 1 klst, eða þar til það
hefur tvöfaldast. Þá er það slegið niður og hnoðað lauslega og síðan skipt í
tvennt og mótað í tvö aflöng brauð sem sett eru á pappírsklædda bökunarplötu
og látin lyfta sér í um hálftíma. Ofninn hitaður í 210 gráður. Skáskorur
skornar í brauðin með beittum hníf og þau pensluð með mjólk eða vatni
(einnig mætti strá 1 msk af heslihnetuflögum á annað brauðið eða bæði) og
síðan bökuð í um hálftíma, eða þar til þau hafa lyft sér vel og tekið góðan
lit. Látin kólna á grind áður en þau eru skorin.
Gómsætt bananabrauð
Þetta brauð er einfalt og fljótlegt að baka en það bragðast afar vel með miklu smjöri. Þarna notum við líka "ónýta banana" í stað þess að henda þeim. Alltaf að spara.
1 og ¾ bolli hveiti
1 teskeið matarsódi
½ teskeið salt
125 g smjör
1 bolli sykur
1 egg
3 þroskaðir bananar
Bananar maukaðir og öllu blandað saman.
Bakað við 170 gráður þar til brauðið er fallega brúnt.
Speltbrauð
3 bollar gróft speltmjöl
2 bollar fínt speltmjöl
5 tesk. vínsteinsduft (fæst í heilsubúðum)
1 matsk. hlynsíróp
1 matsk. ólífuolía
1-2 tesk. sjávarsalt
1 egg
2 bollar sojamjólk eða vatn
1. Settu öll þurrefnin í hrærivélarskál.
2. Blandaðu vökvanum saman við og hrærðu þar til deigið er orðið nokkuð blautt en þó enn þykkt.
3. Settu deigið í smurt form. Bakaðu við 175º C í blástursofni - 190º C í venjulegum ofni - í ca. 60 mínútur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.