Hefur hitað upp fyrir margar helstu hljómsveitir landsins
Sævari Níelssyni ellilífeyrisþega er margt til lista lagt. Þessi síðustu misserin hefur hann mest snúið sér alfarið að áhugamáli sínu sem er pennasöfnun en hann á nú yfir 2335 mismunandi penna. Þá hefur hann einnig safnað upptökurum. En það sem fáir vita og er athyglisvert er að Sævar hefur hitað upp fyrir flestar sveitaballagrúppur landsins. Dreifarinn hafði samband við Sævar.
Segðu mér Sævar, hversu margar hljómsveitir hefurðu hitað upp fyrir? -Ég veit það nú ekki blessaður vertu, ég hef ekkert verið að telja þetta neitt.
En gætirðu ekki skotið á einhverja tölu? -Njaaa, varla, þetta eru svo mörg skipti sem ég þurfti að standa í þessu.
Þetta hafa nú varla verið meira en 20-30 hljómsveitir sem hafa verið á þessum sveitaballarúnti hér áður fyrr? -Neeee, kannski ekki. En ég þekkti svo sem ekkert þessar hljómsveitir eða þetta fólk sem kom þarna í félagsheimilið, þetta bara fylgdi starfinu þarna í Húnaveri.
Það hefur varla verið viðtekin venja að húsverðir væru að hita upp fyrir helstu skemmtikrafta landsins? -Njaaa, kannski ekki yfir sumarið en á veturna þurfti ég að standa í þessu nánast í hvert sinn.
Af hverju frekar yfir vetrartímann Sævar? -Af hverju? Nú það var kuldinn vinur minn, þeim var alltaf svo kalt þessum tónlistarmönnum að ég varð alltaf að koma og kynda vel. Hita svolítið vel upp fyrir þá svo þeir gætu nú eitthvað spilað blessaðir.
Já þú meinar, þannig að þú hefur ekkert verið að spila og syngja sjálfur? -Ég? Neeee, hvernig datt þér það nú í hug vinur? Neinei, ég bara opnaði húsið, hleypti þeim í sjoppuna og skrúfaði upp í miðstöðinni og svona. Þetta var ekkert flókið en svolítil viðvera eins og gengur. En ég kvarta svo sem ekkert.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.