Haukar sýndu Húnvetningum harla litla gestrisni
Aðdáendur Kormáks/Hvatar þráðu sæta hefnd í Hafnarfirði þegar Húnvetningar heimsóttu Hauka sl. miðvikudagskvöld. Þeim fannst Haukar ekki hafa átt skilið jafntefli í fyrri leik liðanna á Blönduósi og nú átti að leiðrétta. Hvort óskirnar hafi ekki skilað sér til leikmanna skal ósagt látið en niðurstaðan varð sú að Hafnfirðingar sýndu litla gestrisni og sendu Húnvetninga heim með 5-1 tap á bakinu.
Haukar voru sæti fyrir ofan lið Kormáks/Hvatar fyrir leik og engin breyting varð á því nema nú skilja fimm stig liðin að en ekki tvö líkt og fyrir leik. Heimamenn náðu forystunni strax á 3. mínútu með mark frá Guðmundi Hilmars og á 16. mínútu bætti Sævar Gylfason um betur eftir hornspyrnu.
Staðan 2-0 í hálfleik og vonir um bætingu frá gestunum gufuðu snemma upp því á 61. mínútu bætti Paulo Ippolito við þriðja marki Hauka og Guðmundur gerði sitt annað mark í leiknum fjórum mínútum síðar. Daði Ingason gerði fimmta mark heimamanna á 78. mínútu áður en Viktor Ingi lagaði stöðuna örlítið fyrir gestina.
Eftir sem áður er staða Húnvetninga ágæt í deildinni, liðið í áttunda sæti og sex stig niður í fallsæti. Næst spilar lið Kormáks/Hvatar laugardaginn 10. ágúst á Sjávarborgarvelli á Hvammstanga en þá koma Austlendingar í Höttur/Huginn í heimsókn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.