Hátt í helmingi fleiri laxar veiðst í Miðfjarðará í ár en í fyrrasumar

Sáttur veiðmaður í Miðfjarðará. MYND AF HÚNA.IS
Sáttur veiðmaður í Miðfjarðará. MYND AF HÚNA.IS

Húnahornið segir frá því að Miðfjarðará ber höfuð og herðar yfir húnvetnskar laxveiðiár en síðustu sjö daga hafa veiðst rúmlega 210 laxar í ánni á tíu stangir, sem samsvarar þremur löxum á stöng á dag. Heildarveiðin er komin í 1.701 lax en á sama tíma í fyrra var hún um 890 laxar og vikuveiðin 107 laxar. Líklega mun veiði í ánni tvöfaldast í sumar miðað við fyrrasumar. Miðfjarðará er þriðja aflamesta á landsins en fyrir ofan hana eru Þverá/Kjarrá með 1.909 laxa og Ytri-Rangá með 2.536 laxa.

Í fréttinni segir: „Af húnvetnskum laxveiðiám hefur veiðst næstmest í Laxá á Ásum eða 771 lax og var vikuveiðin 57 laxar. Á svipuðum tíma í fyrra höfðu veiðst um 500 laxar þá endaði áin í 660 löxum. Veiðin í ár er því umtalsvert betri en í fyrra og verður spennandi að sjá hvort hún nái þúsund löxum.

Í Víðidalsá hafa veiðst 593 laxar sem af er sumri og vikuveiðin var 43 laxar. Í fyrra endaði áin í 645 löxum en 23. ágúst í fyrra stóð áin í 422 löxum. Veiðin í ár er því betri en í fyrra. Sömu sögu er að segja um Hrútafjarðará en þar hafa veiðst 299 laxar í sumar en í fyrrasumar endaði í 185 löxum.

Veiði í Blöndu er áfram slöpp, þó svo að hún sé ekki komin á yfirfall. Aðeins hafa veiðst 283 laxar í ánni og var vikuveiðin 12 laxar. Í fyrrasumar endaði áin í 359 löxum sem var með því lægsta sem sést hefur í Blöndu. Svartá er líka slöpp en þar hafa veiðst aðeins 56 laxar og vikuveiðin fjórir laxar. Í fyrrasumar endaði áin í 131 laxi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir