Hamborgarar rjúka út á Hard Wok til styrktar Ívari Elí og fjölskyldu
Það er allt á fullu á veitingastaðnum Hard Wok á Sauðárkróki um þessar mundir við að afgreiða hamborgarapantanir til styrktar Ívari Elí Sigurjónssonar, fimm ára Króksara sem glímir við flogaveiki. „Pantanir eru að hrannast inn og við erum að afgreiða 40 hamborgara núna í hádeginu, sem ýmist verður sent eða sótt,“ sagði Árni Björn Björnsson eignandi veitingastaðarins í samtali við Feyki.
Hugmyndin kviknaði í tilefni þess að veitingastaðurinn á fimm ára afmæli þann 1. maí og í stað þess að halda veislu var ákveðið að fagna tímamótunum með því að láta gott af veitingastaðnum leiða.
„Þegar við heyrðum af þessum fimm ára gutta úr bænum okkar sem þarf að fara alla leið til Boston til rannsókna á veikindum sem gert hafa lækna hér á landi ráðþrota, ákváðum við að leggja honum og fjölskyldu hans lið með ykkar hjálp. Við settum auglýsingu á Facebook síðastliðinn fimmtudag og ég hef aldrei séð jafn góð viðbrögð. 16 þúsund hafa séð auglýsinguna og rúmlega 200 deilt henni,“ segir Árni hæstánægður með viðtökurnar.
Upphaflega vonaðist Árni til að selja um 200 hamborgara til styrktar Ívars Elí og fjölskyldu en þegar Árni sá þau feiknagóðu viðbrögð sem urðu við auglýsingunni hafði hann samband við birgja staðarins og það stóð ekki á þeim. Nú vonast hann til þess að selja að minnsta kosti helmingi fleiri borgara. „Þeir vildu gera allt sem þeir gátu til að leggja málstaðnum lið og taka þátt. Til dæmis ætlar Eggert Kristjánsson ehf., sem nýverið var keypt af Íslensk-Ameríska, að gefa fimm kassa af frönskum.“ Þá hafa einnig vinir og vandamen fjölskyldu Ívars Elí boðið fram aðstoð sína við afgreiðslu á veitingastaðnum svo allar pantanir gangi sem greiðlegast. „Ég varð fyrst stoltur Skagfirðingur en nú er ég stoltur Íslendingur.“
Einungis verða hamborgarar afgreiddir á staðnum í dag og mun allur ágóðinn renna óskiptur í ferðasjóð fjölskyldu Ívars Elí. „Boðið er upp á Hamborgara með frönskum, kokteilsósu og gosi með ís í eftirrétt á kr. 2500. Nú bind ég miklar vonir við, að alla vega 400 skammtar verði seldir og ætlum við að vera með opið frá 11:00 til 21:30 svo sem flestir geti komið. Við vonum að sem flestir mæti og fái sér hamborgara og leggi góðu málefni lið í leiðinni,“ segir Árni að lokum.
Þeir sem ekki komast en langar að styðja við þau geta lagt inn á reikning 0310-13-133429 kt. 280176-5249
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.