Hafði ekkert lamb að leika sér við
Ærin Skrudda, bar einungis einlembingi síðasta vor og hafði lambið því ekkert lamb að leika sér við. Olli þetta eiganda Skruddu, Orra Engilbertssyni, talsverðum áhyggjum og brá hann á það ráð að dulbúa hundinn sinn, Snata, sem lamb og fylgja ánni og lambinu á fjöll.
Við smölun í haust kom síðan Snati ekki í leitirnar og var hann talinn af. Ekkert hafði til hans spurst síðan rekið var á fjöll en fyrir nokkrum dögum kom Snati vappandi niður hlíðarnar ásamt nokkrum lömbum sem einnig var saknað. Var engu líkara en Snati hefði haldið utan um hópinn og gætt þess að öll lömbin hefðu lamb að leika sér við. Dulbúningur hans var orðinn rytjulegur og líktist Snati frekar varúlfi en dulbúnum hundi.
Orri sagði í samtali við Dreifarann að þessi tilraun hefði sannarlega verið áhugaverð og tilraunarinnar virði. Snati hafi þarna veitt lömbunum félagsskap langt fram á vetur og ætlaði Orri sannarlega að grípa til þessa sama ráðs fengi hann lamb sem hefði ekkert lamb að leika sér við aftur næsta vor.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.