Hæðir og lægðir í laxveiðinni
Endasprettur laxveiðimanna stendur nú yfir í helstu ám landsins en þær loka á næstu dögum. Þá skýrist hvernig til hefur tekist í laxveiðinni í sumar. Miðfjarðará lokar á morgun en hún er aflamest húnvetnsku laxveiðiánna með 1.474 laxa samkvæmt tölum frá 21. september síðastliðnum. Í umfjöllun Húnahornsins um laxveiðina kemur fram að í fyrra endaði Miðfjarðará í 1.796 löxum þannig að það er ljóst að sú tala verður ekki toppuð í ár.
„Miðfjarðará er komin í þriðja sætið á lista yfir aflamestu laxveiðiár landsins. Árnar Ytri Rangá og Hólsá eru í efsta sæti listans með 4.442 veidda laxa sem er um 30% meiri veiði en í fyrra. Í öðru sæti er Eystri-Rangá með 3.412 laxa sem er 4% meira en í fyrra.
Lokatölur fyrir Laxá á Ásum bárust í síðustu viku og endaði áin í 820 löxum sem er 220 löxum meira en í fyrra. Víðidalsá er komin í 746 laxa sem er níu löxum meira en í fyrra. Blanda stendur í 577 löxum sem er sama tala síðustu þrjár vikurnar. Vatnsdalsá er komin í 387 laxa en í fyrra veiddust 427 laxar úr ánni. Veiðst hafa 220 laxar í Hrútafjarðará sem er 151 laxi færra en í fyrra og 169 laxar hafa veiðst í Svartá sem er 32 löxum færra en í fyrra,“ segir á Húnahorninu.
Á veiðivef Moggans má sjá lista yfir svokallaða hundraðkalla sumarsins, þá laxa sem eru minnst 100 sm langir, en nú fyrir helgi höfðu 28 slíkir verið veiddir. Þar af eru átta þeirra veiddir í húnvetnskum ám; þrír í Víðidalsá, tveir í Miðfjarðará og Laxá á Ásum og sitt hvorum hundraðkallinum var landað í Vatnsdalsá og Hrútafjarðará. Þá komu tveir hundraðkallar á land í Skagafirði, í Sæmundará og Húseyjarkvísl.
Laxveiðitölur úr helstu laxveiðiám landsins má sjá á www.angling.is.
- - - - -
Heimildir: Húnahornið og Mbl.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.