Gunnar Ægis sækir um einkaleyfi á Iðnaðarmanna-appinu
Gunnar Ægisson hefur í gegnum tíðina fengið margar góðar hugmyndir, enda uppfinningamaður í frítíma sínum. Hann setti sig í samband við Dreifarann í síðustu viku til að kynna hugmynd sem hann er nú að sækja um einkaleyfi á.
Gunnar, hvað ertu nú búinn að gera? –Það er nú alveg bráðsnjallt skal ég segja þér. Þú þekkir nú hvað það getur verið strembið að ná í iðnaðarmann til að koma og gera við?
Jújú. –Já einmitt. Ég var til dæmis búinn í margar vikur að reyna að ná í pípara í vetur því það lak einhver heil ósköp hjá mér. En það gekk nú ekki vel... að ná í pípara skilurðu? Ekki það að þeir svöruðu ekki blessaðir mennirnir. Nei, nei, en svörin voru alltaf – heyrðu, ekki málið, ég ætti að geta skotist í þetta eftir um það bil 10 daga – eittvað svona. Eftir að vera búinn að fá svona svör í þrjár vikur þá hugsaði ég: Píparar! Þetta er bara píp!
Og var það þá sem þú fékkst hugmyndina? –Já, eitt lítið píp tók jóðsótt skal ég segja þér og varð að stóru fjalli, frábærri hugmynd sem á eftir að gera mig ríkann. Ég er bara að ganga frá pappírunum út af einkaleyfinu í þessum töluðu orðum.
Í hverju felst hugmyndin? –Ja, þú veist að nú eru allir, eða flestir, komnir með þessa snjallsíma og það er hægt að kaupa sér svona öpp í símana. Þannig að hugmyndin mín heitir Iðnaðarmanna-appið. Það á að virka þannig að ef þú hringir í iðnaðarmann sem svarar þér svona – ég kem eftir 10 daga eða ég kem þegar ég kemst – ef maður er semsagt óánægður með svarið, þá smellir maður á stjörnumerkið á símanum og sendir verulega óþægilegt píp-hljóð á iðnaðarmanninn á hinum endanum svo sker í eyrum. Ég kalla þetta hátíðnipípara. Já, þeir fá fyrir ferðina ef þeir lofa ekki að koma strax og gera við þessir kallar.
Og á þessu ætlarðu að græða? –Ég á sko eftir að mokgræða á þessu vinur, það er ekki spurning.
En Gunnar, þegar þú ert ekki að sinna áhugamálinu þá vinnurðu fyrir þér sem smiður, á þetta ekki eftir að bitna á þér sjálfum? –Ehe, já þú meinar. Já já, ja ég þarf náttúrlega að skoða þetta kannski eitthvað betur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.