Grunur um myglu í Árskóla á Sauðárkróki

Feykir hafði veður af því að mygla hefði nýlega fundist í húsakynnum Árskóla. Fyrirspurn var send á Sigfús Inga Sigfússon, sveitarstjóra Skagafjarðar, sem svaraði að bragði að við undirbúning framkvæmda við skólann hafi komið í ljós að raki var í útvegg og grunur um myglu.

Hann segir að fyrir dyrum standi framkvæmdir vegna gluggaskipta í A-álmu Árskóla og er áætlað að framkvæmdir hefjist á mánudag. „Í aðdraganda þess og undirbúningi kom í ljós að raki var í útvegg í einni skólastofu og grunur um myglu. Sveitarfélagið óskaði eftir sýnatöku frá Heilbrigðiseftirliti og hefur hún þegar farið fram en beðið er eftir niðurstöðum.“

Sigfús segir að ákveðnar skólastofur verði ekki í notkun á meðan niðurstaðna er beðið. Ákvörðun um mögulegt viðbragð verður tekin í kjölfarið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir