Grunnskólinn austan Vatna komst bara víst í úrslit í Skólahreysti

Lið Grunnskólans austan Vatna. Beðist er velvirðingar á myndgæðunum. SKJÁSKOT
Lið Grunnskólans austan Vatna. Beðist er velvirðingar á myndgæðunum. SKJÁSKOT

Eitthvað klikkuðu reikningskúnstir Feykis í nótt þegar birtar voru niðurstöður í Skólahreysti. Þá var nánast fullyrt að Grunnskólinn austan Vatna í Skagafirði hefði naumlega orðið af sæti í úrslitum keppninnar skemmtilegu – en viti menn; í hádeginu í dag var tilkynnt á Facebook-síðu Skólahreysti að Grunnskólinn austan Vatna hefði sannarlega tryggt sér sæti í úrslitunum.

Auk Grunnskólans austan Vatna höfðu Varmahlíðarskóli og Grunnskóli Húnaþings vestra áður tryggt sér sæti í úrslitum. Norðurland vestra er því með þrjá skóla af tólf í úrslitum í  Skólahreysti og ef það var snilld að eiga tvo skóla af tólf miðað við höfðatölu í nótt hversu geggjað er þá að eiga þrjá skóla í úrslitunum!?

Eins og fram kom í frétt Feykis í nótt þá höfðu allir skólarnir sem unnu þá átta riðla sem keppt var en það hafði verið beðið með að tilkynna hvaða fjórir skólar með bestan árangur í öðru sæti kæmust í úrslitin. „Þeir skólar sem voru með bestan árangur og ekki enduðu í fyrsta sæti í sínum undanriðli eru eftirtaldir og ekki í neinni stigaröð : Gr.Austan Vatna, Langholtsskóli, Laugalandsskóli og Laugalækjarskóli,“ segir í færslu á síðu Skólahreysti.

Lið Grunnskólans austan Vatna skipa; Björn Austdal Sólbergsson, Fjóla Indíana Sólbergsdóttir, Hlynur Jónsson og Valgerður Rakel Rúnarsdóttir en varamenn voru Bjarkey Dalrós Rúnarsdóttir og Vignir Ingvi Einarsson.

Feykir biðst velvirðingar á þessum hallærislegu reikningskúnstum og óskar keppendum Grunnaskólans austan Vatna til hamingju með árangurinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir