Gróska í starfsemi Golfklúbbs Skagafjarðar

Golfklúbbur Skagafjarðar (GSS) hefur starfað frá árinu 1970 og verður því 50 ára á árinu 2020. GSS gegnir mikilvægu hlutverki í Sveitarfélaginu Skagafirði. Í fyrsta lagi fer fram öflugt barna- og unglingastarf í klúbbnum sumar sem vetur, í öðru lagi hentar golf sem áhugamál, félagsskapur og heilsubót fyrir fólk á öllum aldri og síðast en ekki síst er golf hluti af ferðamennsku og golfarar heimsækja Skagafjörð gagngert til þess að spila golf.
Félagar í GSS eru um 200 talsins. Afmælisrit kemur út í vikunni með fjölbreyttu efni. Meðal annars er ágrip af sögu klúbbsins, viðtöl við félagsmenn, greinar o.fl.

Góð skráning á afmælismót

Afmælismót verður haldið 27. júní. Mjög góð skráning er á mótið og útlit fyrir að færri komist að en vilja. Vegleg verðlaun eru í sex verðlaunaflokkum og að auki fjöldi útdráttarvinninga. Afmælisdagurinn sjálfur er hins vegar í nóvember og þá verður veglegt afmælishóf. Mótahald skipar stóran sess í starfi klúbbsins. Árlega eru haldin a.m.k. sex opin mót og yfir 20 innanfélagsmót.   

Skagafjörður – áfangastaður kylfinga

Fegurð Skagafjarðar heillar hvern þann sem sækir fjörðinn heim.  Hlíðarendavöllur er paradís á Nöfunum fyrir ofan gamla bæinn á Sauðárkróki. GSS leggur áherslu á að laða ferðakylfinga til Skagafjarðar, spila flottan völl, njóta sveitaloftsins og stórkostlegs útsýnis. GSS hefur eignast fjölda vinaklúbba, en félagsmenn þeirra fá afslátt á Hlíðarenda. Um síðustu helgi, 20. – 21. júní, var völlurinn yfirfullur af kylfingum og voru flestir þeirra aðkomufólk. Á laugardagskvöldi var haldið 9 holu sólstöðumót og þar var glatt á hjalla.

Golf í heilsueflandi sveitarfélagi
Sveitarfélagið Skagafjörður varð nýlega heilsueflandi sveitarfélag. Golfklúbburinn fagnar því að starfa að heilsueflingu í firðinum. Golfið hentar fólki á öllum aldri. Fjölskyldan getur farið saman í golf, m.a.s. amma og afi með. Áhrif golfiðkunar á heilsuna eru ótvíræð, enda er góður göngutúr innifalinn í golfhring. Allir læknar mæla með reglulegum gönguferðum. Golfið er líka gott fyrir heilann því það þarf að brjóta heilann um hvernig hægt er að koma golfboltanum í holuna í sem fæstum höggum. Í golfinu er góður félagsskapur og umhverfið er grænt og fallegt.  
Klúbburinn á golfhermi í húsnæði niðri í bæ. Það er því hægt að stunda golf allan ársins hring. Í húsnæðinu er að auki púttvöllur og aðstaða til að slá í net. Inniaðstaðan er nýtt af félagsmönnum til æfinga og mótahalds og þar eru inniæfingar fyrir börn og unglinga á veturnar. 

Barna- og unglingastarf
Barna og unglingastarf er blómlegt og fer vaxandi.  Sumaræfingar eru á virkum dögum í júní – ágúst og á veturnar eru inniæfingar. Þjálfarar GSS eru kylfingar í GSS og einnig fær klúbburinn til liðs við sig PGA kennara eða atvinnukylfinga til námskeiðahalds og kennslu.  

Metaðsókn á nýliðanámskeiði 2020
Aldrei hafa jafn margir verið á nýliðanámskeiði GSS. Árlega eru haldin nýliðanámskeið á vorin en markmið þeirra er að kenna réttu handtökin og gera inngöngu í GSS áhugaverða, með kynningu, námskeiðum og nýliðamótum. Þátttakendur hafa jafnan verið um 15 – 20 en þetta árið eru um 40 manns að læra réttu tökin. Nýliðanefndin og þjálfarar á nýliðanámskeiði hjálpa  við skrefið frá því að vera byrjandi yfir í það að spila reglulega á Hlíðarendavelli.  

Skagfirsk sveifla
Formaðurinn samdi lag um golf sem Róbert Óttarsson bakari og eðalsöngvari syngur. Þeir félagar fara í stúdíó í vikunni og lagið er væntalegt á Spotify. Að sjálfsögðu heitir lagið Skagfirsk sveifla.

Hugað að stækkun í 12 holu völl
Hlíðarendavöllur fær einróma lof þeirra sem hann sækja. Staðsetning vallarins er góð, í göngufæri frá íbúðabyggð og tjaldstæðum bæjarins sem hefur marga augljósa kosti. Vallarstjórinn hefur ásamt sumarstarfsmönnum unnið afrek við að halda vellinum í góðu ástandi og tækjum gangandi. Í bígerð er að stækka völlinn í 12 holur og hefur stjórn klúbbsins sett sig í samband við virtan golfvallarhönnuð.  

 

Kristján Bjarni Halldórsson, formaður GSS, formadur@gss.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir