Gröf þriðja ísbjarnarins fundin
Rétt fyrir kvöldmat fann Viggó Jónsson, staðarhaldari Skíðasvæðis Tindastóls gröf á leiðinni upp á skíðasvæði. Við nánari skoðun kom í ljós að þarna hafði verið heygður ísbjörn. Er þarna að öllum líkindum um að ræða hinn margumtalað þriðja ísbjörn sem sást við Bjarnavötn í júní á síðasta ári.
-Ég var að koma ofan af skíðasvæði þegar ég rak augun í tófu sem var að krafsa í einhvern haug rétt fyrir neðan gil sem er þarna ekki langt frá veginum. Það hefur verið óvenju mikið um tófuspor í vetur og því gaf ég þessu frekari gaum og var snöggur út þegar ég sá hana vera að krafsa í eitthvað svona stutt frá mér. Tófan gaf mér hins vegar ekki mikinn gaum og hélt uppteknum hætti. Það var ekki fyrr en ég var rétt ókominn að tófunni að hún gaf sig og hljóp í burtu. Þegar ég fór að skoða nánar hvað það var sem hún var að grafa gat ég ekki betur séð en þar mætti mér bjarnahrammur, segir Viggó. –Mig grunaði strax hvað þarna væri um að ræða og hringdi í Stefán Vagn sem kom hingað með lögreglumenn, Þorstein Sæmundsson frá Náttúrustofu Norðurlands vestra og nokkrum björgunarsveitarmönnum. Þeir eru þessa stundina að vinna í því að grafa björninn upp en gröfturinn gengur hægt því jörðin er gaddfreðinn, bætir Viggó við.
Aðspurður segist Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn, ekki vilja gefa neitt uppi. –Lögreglan mun ekki gefa yfirlýsingu um málið á þessari stundu, sagði Stefán Vagn.
Ekki var blaðamönnum hleypt að gröf bjarnarins en eins og sjá má á myndunum fer ekki á milli mála hvað það er sem mennirnir eru að grafa upp. –Þegar maður hefur einu sinni séð ísbjarnahramm þá þekkir maður hann aftur hvar og hvenær sem er, segir Viggó.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.