Grindvíkingar í hugum okkar allra

Forsíðufrétt Feykis er kannski ekki að koma inn alveg á réttum degi, svona í ljósi heimsóknar Grindvíkinga til  okkar í Síkið í gærkvöld, þar sem þeir komu og  unnu leikinn. Fyrirsögnin er dagsönn, en kannski akkúrat í dag halda margir að hér sé um að ræða skrif um leikinn en það er ekki svo. Mikið áfall dundi yfir Grindvíkinga að morgni sunnudags þegar gos hófst að nýju og var það ein versta sviðsmynd vísindamanna sem rættist þegar sprunga opnaðist í beinni útsendingu um hádegi rétt við bæjarmörkin og hraunið fór að renna inn í bæinn. Hugur allra landsmanna er hjá Grindvíkingum í þessari hræðilegu óvissu sem nú ríkir. Ljóst er að þegar þetta er skrifað rennur hraun ekki að svo stöddu inn í bæinn en framhaldið er óljóst. Vísindamenn segja að kvikugangur sé undir bænum og vísbendingar um að ný gosop geti opnast. Áfram mælist gliðnun innanbæjar í Grindavík svo ljóst er að ástandið er slæmt. Óvissa Grindavíkur og Grindvíkinga algjör. Rauði krossinn á Íslandi hefur hafið neyðarsöfnun vegna eldgossins við Grindavík. Afrakstur hennar verður nýttur til að styðja Grindvíkinga fjárhagslega.

Á vefsíðu Rauða krossins segir að það hryggir okkur að eldgosið valdi skemmdum á heimilum fólks og innviðum bæjarins. Hugur okkar er hjá Grindvíkingum og við munum standa með þeim í gegnum þetta erfiða tímabil og vera til staðar eins lengi og þörf krefur.

Öllu fé sem safnast í þessari söfnun verður úthlutað til Grindvíkinga í gegnum úthlutunarnefnd, að undanskildum kostnaði við úthlutunina sjálfa. Úthlutunarnefndin samanstendur af fulltrúum Rauða krossins, félagsþjónustu Grindavíkurbæjar og kirkjunnar í Grindavík. Hægt er að sækja um fjárstuðning í þjónustumiðstöð Grindvíkinga í Tollhúsinu við Tryggvagötu.

Við vitum að fjölmargir aðilar, bæði innlendir og erlendir, hafa mikla samúð með þeim hamförum sem Grindvíkingar standa nú frammi fyrir og vilja leggja sitt af mörkum til að styðja bæjarbúa og hjálpa þeim að komast í gegnum þessar hremmingar. Þessari söfnun er ætlað að koma til móts við öll þau sem vilja leggja sitt af mörkum og veita bæjarbúum stuðning.

Svona getur þú styrkt söfnunina:

https://www.raudikrossinn.is/styrkja/stakur-styrkur/
SMS: Senda HJALP í símanúmerið 1900 (2.900 kr.) (Síminn og Nova)
Hringja í 904-2500 til að styrkja um 2.500 kr.
Aur/Kass: @raudikrossinn

Söfnunarreikningur Rauða krossins: 0342-26-12, kt. 530269-2649

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir